LISTAMAÐUR ÞJÓÐARINNAR –VEFSÝNING Á VÖLDUM VERKUM EFTIR ÁSGRÍM JÓNSSON

7.10.2015

Sunnudaginn 11. október kl. 15.30 verður opnuð vefsýning á heimasíðu Listasafns Íslands á völdum verkum eftir Ásgrím Jónsson. Vefsýningin er unnin með styrk frá Rannsóknarsjóði Íslands, Nýsköpunarsjóði námsmanna af Vigdísi Rún Jónsdóttur nemanda í listfræði við Háskóla Íslands.Umsjónarmenn verkefnisins voru Rakel Pétursdóttir, deildarstjóri rannsókna og sérsafna við Listasafn Íslands og dr. Hlynur Helgason, lektor við Háskóla Íslands. Verkefnið er þáttur í viðleitni Listasafns Íslands að gera þau fjölmörgu verk sem safnið varðveitir aðgengileg í gegnum netið. Sýningin ber heitið Listamaður þjóðarinnar, vefsýning á völdum verkum eftir Ásgrím Jónsson. Listaverkagjöf Ásgríms til íslensku þjóðarinnar inniheldur rúmlega 700 olíu- og vatnslitamyndir, fullgerðar sem ófullgerðar, á annað þúsund teikningar og 150 teiknibækur auk fjölda ófullgerðra mynda frá ýmsum tíma. Viðfangsefni Ásgríms voru fjölbreytt og má skipta myndum hans í nokkra efnisflokka, svo sem þjóðsagnamyndir, landslagsmyndir, borgarlandslag, mannlífsmyndir og kyrralífsmyndir. 

Á vefsýningunni Listamaður þjóðarinnar eru valin verk úr eftirfarandi efnisflokkum: 

Þjóðsagnamyndir – þar sem listamaðurinn myndskreytir íslenskar þjóðsögur og ævintýri.

Landslagsmyndir – þar er myndefnið að stórum hluta frá Húsafelli og Þingvöllum. 

Borgarlandslag – sem sýnir Reykjavík og nágrenni. Stuttur texti fylgir hverjum flokki. 

Skoða má vefsýninguna á slóðinni http://www.listasafn.is/safneign/innkaupanefnd/vefsyning/

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17