Birta Guðjónsdóttir, deildarstjóri sýningadeildar Listasafns Íslands, ræðir við Gabríelu Friðriksdóttur um verk hennar Crepusculum á sýningunni SAGA - ÞEGAR MYNDIR TALA. Sýningin opnaði 22.5.2015 og stendur til 6.9.2015 í Listasafni Íslands. Allir velkomnir!
Allt frá því Gabríela Friðriksdóttir hóf að gera myndbandsverk árið 2002 hefur smám saman orðið til í þeim afar sérstakur myndheimur, með gróteskum og súrrealískum sviðsetningum, þar sem útmörk manns og náttúru, þráar og tilfinningar eru könnuð. Í fjölbreyttum verkum sínum birtir Gabríela í senn þekkta og framandi þætti, mannlega og ójarðneska, viðkunnanlega og ógeðfellda og vekur því upp kunnugar en um leið fjarlægar, jafnvel óþægilegar tilfinningar. Verkið Crepusculum er hér sýnt í fyrsta sinn á Íslandi en var fyrst sýnt á Bókamessunni í Frankfurt árið 2011, síðan á Tvíæringnum í Lyon árið 2013, og leikur á alls kyns menningarlega og sálfræðilega þætti í rannsókn á umbreytileikanum. Verkinu Crepusculum hefur verið lýst sem magnum opus Gabríelu því allt hennar höfundarverk felist í því með einum eða öðrum hætti.
Gabríela Friðriksdóttur fjallar um verkið Crepusculum