LISTAMANNASPJALL Í LISTASAFNI ÍSLANDS

11.2.2016

Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands og sýningarstjóri sýningarinnar Kvartett, ræðir við listamanninn Gauthier Hubert um feril hans. Gauthier Hubert er einn fjögurra listamanna sem eiga verk á sýningunni.

Gauthier Hubert er fæddur árið 1967 í Belgíu og býr og starfar í Brussel. Skömmu fyrir síðustu aldamót hlaut hann Verðlaun ungra belgískra málara, sem fleyttu honum í raðir helstu listamanna þjóðarinnar og hafa verk hans verið sýnd á yfir 50 sýningum í Evrópu. Gauthier er prófessor við Konunglegu listaakademíuna í Brussel. 

Í verkum sínum bregður hann upp áhugaverðum listsögulegum spurningum tengdum félagslegum-, stjórnmálalegum-, sögulegum- og heimspekilegum atriðum sem hann finnur gjarnan í þekktum listaverkum fyrri tíðar og verða til þess að endurnýja kynni okkar af list og listamönnum sem við teljum okkur gjörþekkja. Hugleiðingar frammi fyrir tómlegu augnaráði göfugrar fyrirsætu í portretti eftir Hans Holbein yngri, um hvað hún sé að velta fyrir sér, svo dauf í dálkinn, verða tilefni til könnunar Hubert á því hvert, hvernig og á hvað hún horfir. Gauthier Hubert leikur sér að listasögunni með heillandi gáska og sannfærir áhorfandann um framhaldslíf þeirra persóna og leikenda sem eitt sinn sátu fyrir hjá meisturunum. 

nánar um sýninguna

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17