LISTAMANNASPJALL: SAGA –ÞEGAR MYNDIR TALA

9.6.2015

Hulda Hákon segir frá verkum sínum og ferli á listamannaspjalli í tengslum við sýninguna SAGA - ÞEGAR MYNDIR TALA.

Á sýningunni má sjá valin verk fjölda íslenskra samtímamyndlistarmanna auk nokkurra erlendra er endurspegla frásagnarþáttinn í íslenskri sjónmenningu.

Í verkum sínum fjallar Hulda Hákon um heiminn eins og hann kemur henni fyrir sjónir með myndheimi sem samsettur er úr minni íslenskra þjóðsagna, og myndrænum smásögum hennar sjálfrar af fólki og atburðum og karakterum úr íslensku þjóðlífi. Verk hennar eru um leið annað og meira en sögurnar sem þau segja. Auðþekkjanlegt myndmál Huldu beinir sjónum að öðrum og stærri viðfangsefnum, álitamálum og úrlausnarefnum. Hulda er sögumaður sem notar nokkuð auðþekkjanlegt myndmál, tákn, myndir og orð. Í verkum hennar er að finna tengsl milli skúlptúrs og málunar og gjarnan texta, en hún fæst við tengsl texta og myndar á afar kíminn hátt en með alvörugefnum undirtón. Verk hennar skila þannig marglaga upplifun skúlptúrs, málverks, ritaðs máls, frásagnar og skilaboða. 

Hulda Hákon útskrifaðist úr þá nýstofnaðri nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1981. Eftir útskrift lá leið hennar til Bandaríkjanna, þar sem hún stundaði framhaldsnám við The School of Visual Arts í New York, þaðan sem hún útskrifaðist árið 1983 úr skúlptúrdeild. Hulda hefur skapað sér nafn í íslenskum listaheimi síðustu áratugi með lágmyndum sínum og skúlptúrum þar sem leikgleði og einlægni er í fyrirrúmi. 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17