LISTAMANNASPJALL VIÐ GJÖRNINGAKLÚBBINN - VATN OG BLÓÐ

7.11.2019

Dagný Heiðdal, varðveislu- og skráningarstjóri Listasafns Íslands ræðir við Gjörningaklúbbinn um sýninguna Vatn og blóð, sunnudaginn 10. nóvember kl.14.

Vatn og blóð er nýtt vídeóverk eftir Gjörningaklúbbinn, sem sækir innblástur í líf og list Ásgríms Jónssonar listmálara. Í verkinu mætir fortíðin nútímanum þar sem sköpunarkrafturinn, innsæið og náttúran skipa stóran sess í óræðum heimi.

Við undirbúning verksins var sjáandi fenginn til að komast í tengsl við Ásgrím sem tjáði sig um orkuna sem býr í listinni og sameiginlega þörf listamanna fyrir að skapa. Þetta er í annað sinn sem Gjörningaklúbburinn nýtur aðstoðar miðils við undirbúning á verki, en fyrst var það við gerð þátttökugjörningsins Sálnasafn (2016), og heitið sem myndlistarkonurnar í Gjörningaklúbbnum hafa gefið aðferðinni er miðill-miðill.

Gjörningaklúbburinn á að baki fjölda einka- og samsýninga í söfnum og galleríum um allan heim, þar á meðal í ARoS-listasafninu í Danmörku, MoMA-samtímalistasafninu í New York, Kunsthalle Wien í Austurríki, Schirn Kunsthalle og samtímalistasafninu Hamburger Bahnhof í Þýskalandi, Amos Anderson-listasafninu í Helsinki og Lilith Performance Studio í Svíþjóð.

Eirún Sigurðardóttir (f. 1971) og Jóní Jónsdóttir (f. 1972) skipa Gjörningaklúbbinn sem var stofnaður 1996 og er einn langlífasti myndlistarhópur landsins. Femínískar áherslur ásamt glettni og einlægni einkenna verk hópsins sem vinnur í þá miðla sem þjóna hugmyndum hans hverju sinni. Gjörningaklúbburinn nýtir sér gjarnan verkfræði ömmunnar, handverk og útsjónarsemi í verkum sínum í bland við glæsileika og nútímatækni.

Vatn og blóð var sérstaklega unnið að ósk Listasafns Íslands. Aðrir sem styrktu gerð verksins: Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar, Launasjóður myndlistarmanna, Myndstef.

Mynd: Vatn og blóð, Gjörningaklúbburinn 2019

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)