Listasafn Íslands 135 ára – ókeypis aðgangur

14.10.2019

Miðvikudaginn 16.október er Listasafn Íslands 135 ára. Í tilefni dagsins verður ókeypis aðgangur á safnið.  Einnig verður ókeypis inn á Listasafn Íslands, Safn Ásgríms Jónssonar og í Listasafn Sigurjóns Ólafssonar, laugardaginn 19. og sunnudaginn 20. október.

 

-Gæðastund í safninu kl. 14-15.30. Dagskráin er ætluð eldri borgurum og er samsett af sérsniðnum leiðsögnum og spjalli við sérfræðinga safnsins um myndlist, yfirstandandi sýningar og starfsemi safnsins. Að þessu sinni verður boðið upp á kynningu á útgáfum Listasafns Íslands í gegnum tíðina. Bækur, rit og sýningaskrár um myndlist skipa sérstakan sess í íslenskri bókaútgáfu.

 

-Allar bækur sem Listasafn Íslands hefur gefið út verða á sérstöku afsláttarverði í Safnbúðinni og má þá helst nefna nýjustu bókina 130 verk úr safneign Listasafns Íslands, bók sem listunnendur mega ekki láta framhjá sér fara.

 

-Krakkaklúbburinn Krummi býður upp á heimspekispjall barnanna í umsjá Kristian Guttesen heimspekings laugardaginn 19.október kl.14-16. Verk Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur eru ríkuleg uppspretta vangaveltna um hlutverk lita og tákna hjá listamönnum. Hér verður spjallað saman á heimspekilegum nótum, spurt spurninga og talað um það sem við sjáum. sjá nánar

A.T.H. Táknmálstúlkur verður á staðnum

-Á sunnudaginn 20. október kl. 14 leiðir Dagný Heiðdal varðveislu- og skráningastjóri Listasafns Íslands gesti um sýninguna Eintal, yfirlitssýningu Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur. sjá nánar

_________________________________________________________________________________

Listasafn Íslands var stofnað í október 1884 í Kaupmannahöfn af Birni Bjarnarsyni (1853-1918), síðar sýslumanni. Stofn safnsins voru gjafir listamanna, einkum danskra.

Verk safnsins voru til sýnis í Alþingishúsinu frá 1885 til 1950 þegar það fluttist í Safnahúsið við Suðurgötu sem það deildi með Þjóðminjasafni Íslands. Listasafnið var formlega opnað þar 1951 og hlaut fullt sjálfstæði skv. lögum árið 1961.

Árið 1987 fluttist safnið að Fríkirkjuvegi 7. Aðalbyggingin var reist sem íshús árið 1916 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar (1887-1950) en nýbyggingin aftanvið er verk Garðars Halldórssonar (f. 1942), húsameistara ríkisins.

 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17