Guðmundur Ingólfsson og Halla Hauksdóttir, forsvarsmenn Listaverkasafns Valtýs Péturssonar ásamt Ólafi Inga Jónssyni, forverði Listasafns Íslands, munu ganga með gestum um sýninguna Valtýr Pétursson, sunnudaginn 26. mars kl. 14. Þau munu segja frá persónulegum kynnum sínum af Valtý og vitna í bréf og viðtöl.
Einstakt tækifæri til að kynnast Valtý, sem var mikill sögumaður og skemmtileg persóna. Valtýr Pétursson (1919−1988) var brautryðjandi abstraktlistar hér á landi, afkastamikill listmálari, mikilvirkur gagnrýnandi og virkur þátttakandi í félagsstarfi listamanna. Sýningunni í Listasafni Íslands er ætlað að gefa yfirlit yfir fjölbreyttan listferil Valtýs. NÁNAR
VALTÝR PÉTURSSON
Út er komin vönduð bók um Valtý Pétursson listmálara. Bókin inniheldur fræðilegar greinar eftir Önnu Jóhannsdóttur og Jón B. K. Ransu um listferil Valtýs og störf hans sem listgagnrýnanda og ýtarlegt æviágrip eftir Dagnýju Heiðdal og Höllu Hauksdóttur. Í bókinni er fjölda ljósmynda af listaverkum Valtýs. Bókin er gefin út af Listasafni Íslands í samvinnu við Listaverkasafn Valtýs Péturssonar. Ritstjóri er Dagný Heiðdal.
Bókin er á sérstöku tilboðsverði í Safnbúð listasafns Íslands.