Á sýningunni Ljósmálun er gerð tilraun til að skoða ýmsar birtingarmyndir málverka í ljósmyndum úr íslenskri samtímalist. Hefðbundnar hugmyndir staðhæfa að listmiðlar séu fullkomlega aðgreindir og í eðli sínu og samsetningu einstakir. Samband ljósmyndunar og málaralistar hefur þó alla tíð verið margslungið og það er engan veginn einhlítt með hvaða móti hugmyndir og áhrif beggja miðla tvinnast saman í sjónrænni framsetningu veruleikans. Oft eru ljósmyndun og málaralist skilgreindar sem andstæður með vísun til ólíkra eiginleika, en það sem þó virðist einkenna samspil þessara miðla á okkar tímum er að málverkinu og ljósmyndinni tekst hvorugu að hrifsa til sín frumkvæðið heldur renna mörk þeirra og eiginleikar saman þegar málverkið birtist í ljósmyndinni og upphefur hana og sjálft sig um leið.
Verkin á sýningunni eru frá tímabilinu 1965 til 2015 og eru að langstærstum hluta úr fórum Listasafns Íslands.
Listamenn: Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Bjargey Ólafsdóttir, Daníel Þorkell Magnússon, Erla Þórarinsdóttir, Heimir Björgúlfsson, Hrafnkell Sigurðsson, Hreinn Friðfinnsson, Hugsteypan (Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir & Þórdís Jóhannesdóttir), Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Katrín Elvarsdóttir, Ólafur Elíasson, Ólafur Lárusson, Pétur Thomsen, Rafn Hafnfjörð, Sigurður Guðmundsson, Sigurður Árni Sigurðarson, Sigurjón Jóhannsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Spessi (Sigurþór Hallbjörnsson), Svala Sigurleifsdóttir, Tumi Magnússon, Valgerður Guðlaugsdóttir, Þór Sigurþórsson.