Menningarnótt: TÓNLEIKAR Í LISTASAFNI ÍSLANDS. KVEÐJA – SNORRI SNORRASON TENÓR
18.8.2016
Snorri Snorrason tenór er fæddur og uppalinn á Akureyri. Hann lagði stund á söngnám hjá Þuríði Baldursdóttur við Tónskóla Eyjafjarðar 1997–1998 og söng með Karlakór Eyjafjarðar á árunum 1996–2008.
Snorri stundaði nám við Tónlistarskóla Akureyrar 2010-2011 hjá Michael J. Clark og við Söngskóla Sigurðar Dementz í Reykjavík og hjá Kristjáni Jóhannssyni frá 2011 til 2015. Snorri hefur haldið einsöngstónleika við góðan orðstír jafnt norðan heiða sem sunnan.
Á sýningunni UDSTILLING AF ISLANDSK KUNST í Listasafni Íslands eru verk 12 listamanna sem valdir voru sem fulltrúar íslenskrar myndlistar á sýningu í Kaupmannahöfn árið 1927. Einn þessara listamanna var Eyfirðingurinn Kristín Jónsdóttir en á sýningunni í Listasafni Íslands eru verk hennar frá heimahögunum í Eyjafirði.
Efnisskráin er fjölbreytt en á tónleikunum mun Snorri flytja þekktar aríur og íslensk sönglög við undirleik Antoníu Hevesi píanóleikara. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 í Listasafni Íslands Fríkirkjuvegi 7.
sjá dagskrá menningarnætur hér