Nemendur að skoða listaverk

Mikill er máttur safna

17.5.2022

Í tilefni safnadagsins skrifar Ragnheiður Vignisdóttir, verkefnastjóri fræðslu og viðburða hjá Listasafni Íslands, um mátt safna þegar kemur að nýsköpun og fræðslu:

„Það sem allir gera rangt er að skoða bara myndina… og hlaupa svo að næstu“

Þessi fyrirsögn er fengin úr sjónvarpsviðtali við nemanda í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík sem síðustu mánuði hefur tekið þátt í þróunarverkefni á vegum Listasafns Íslands sem ber nafnið Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi. Verkefnið byggir á þátttöku nemenda sem heimsækja safnið reglulega og læra þar myndlæsi með völdum listaverkum. Fræðsluverkefni á borð við Sjónarafl felur í sér valdeflingu barna til að skilja og takast á við myndrænar upplýsingar og heiminn eins og hann kemur þeim fyrir sjónir. Þjálfun í myndlæsi eykur gagnrýna hugsun og með endurteknum heimsóknum á safnið kynnast börnin einnig menningararfi þjóðarinnar. Þar að auki kjarnar verkefnið styrkleika safna sem geta veitt mikilvægt mótvægi við þann hraða sem einkennir samfélag dagsins í dag.

Yfirskrift Alþjóðlega safnadagsins 2022 er Mikill er máttur safna. Þessi yfirskrift fær mann til að hugsa um raunverulega getu safna til að vera knýjandi afl til breytinga og sú geta liggur ekki síst í menntunarhlutverkinu sem er í eðli sínu víðtækt. Fjölbreyttar sýningar sem takast á við ólík málefni og áskoranir, sérsniðin dagskrá fyrir ólíka hópa og markviss tengsl við skólakerfið er hluti af starfi Listasafns Íslands og mikil alúð og vinna er lögð í það starf innan safnsins.

Fram undan eru spennandi tímar þar sem allar hæðir Safnahússins við Hverfisgötu verða á næsta ári undirlagðar þverfaglegri sýningu sem brúar bilið á milli myndlistar og vísinda. Þar munu lykilverk úr safneign Listasafns Íslands skapa samtal við vísindaleg málefni og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17