NÍNA SÆMUNDSSON LISTIN Á HVÖRFUM 6.11. 2015 - 17.1. 2016

4.11.2015

Sýning á verkum Nínu Sæmundsson í Listasafni Íslands –opnar föstudaginn 6. nóvember kl. 18.

Nína Sæmundsson (1892–1965) var fyrsta íslenska konan sem gerði höggmyndalist að ævistarfi. Á sýningunni verður leitast við að gefa gestum sýn yfir alþjóðlegan listferil Nínu á tímum mikilla breytinga og tveggja heimsstyrjalda. Framan af hafði hún að leiðarljósi hina klassísku hefð, sem hún kynntist á námsárunum í Kaupmannahöfn, en þar er hinn fullkomni og heilbrigði mannslíkami upphafinn og sýndur í frjálsri hreyfingu eða slökun og áberandi eru goðsagnaminni með konuna í forgrunni með kennitákn sín. Kynnt verða helstu lykilverk hennar, alveg frá námsárunum í Kaupmannahöfn, svo sem Sofandi drengur og Rökkur sem hún vann í Rómaborg, auk verðlaunaverksins Móðurástar frá Parísarárunum, og allt til tímans í Kaliforníu þar sem nýir áhrifavaldar koma fram í efniviði og túlkun undir áhrifum frá list frumbyggja við Kyrrahafið, líkt og sjá má í verki hennar af Njáli á Bergþórshvoli.Sýningarstjóri er Hrafnhildur Schram.

Samhliða sýningunni kemur út stórglæsileg og áhrifamikil bók Hrafnhildar Schram um Nínu, feril hennar og ótrúlega viðburðaríka ævi. Útgefandi er Crymogea og verður bókin til sölu í Safnbúð Listasafns Íslands. 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17