Bókakápa

Nýtt námsefni í myndlæsi

13.12.2023

Nýtt námsefni í myndlæsi eflir hugtakaskilning og gagnrýna hugsun

Listasafn Íslands gefur út fræðsluefnið Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi .
Efnið hefur verið aðgengilegt á rafrænu formi síðastliðið ár og verið í notkun í safnfræðslu og víða í skólakerfinu við góðar undirtektir. Sjónarafl er byggt á þróunarverkefni sem fræðsludeild Listasafns Íslands hefur unnið að síðastliðin fjögur ár. Sjónarafl  miðar að því með markvissum hætti að tengja kennslu í myndlæsi og listasögu við skólakerfið og auka þannig þekkingu nemenda á menningarsögu og menningararfi þjóðarinnar. Þjálfun í myndlæsi eykur hæfni í tjáningu, virkri hlustun, hugtakaskilningi og rökhugsun.Sjónarafl er byggt á alþjóðlegum rannsóknum í myndlæsi en hefur verið aðlagað og staðfært að íslenskri safnfræðslu. Efnið byggist á rannsóknaraðferð sem kallast Visual Thinking Strategies, og var þróað í Bandaríkjunum af Phillip Yenawine og Abigail Housen. Þar hafa rannsóknir sýnt fram á mælanlegan árangur af getu nemenda til að færa rök fyrir máli sínu og eflingu gagnrýninnar hugsunar með þjálfun í myndlæsi.

Er þetta list?
Margir upplifa að myndlist sé torræð og oft á tíðum óskiljanleg. Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi er liður í því að afnema þessa tilfinningu gagnvart myndlistinni, því list er lífsgæði sem ekki þarfnast sérþekkingar til að njóta. 
Í myndlæsi er unnið markvisst með umræðu- og spurnaraðferð  þar sem þátttakendum er gefið gott rúm til að tjá sig, lýsa eða túlka það sem þeir sjá. Með tímanum fá þátttakendur í verkefninu dýrmæta lykla sem veita þeim hæfni til að skoða og njóta myndlistar í hvaða formi sem er.  Þá eru einungis tvö listaverk tekin fyrir í hverri safnaheimsókn eða kennslustund, en tekinn er allt að hálftími til að greina, ræða um og rýna í hvert verk með virkri þátttöku nemenda.

Í sjónarafli er unnið með þessa setningu; „Því lengur sem við horfum á listaverk því meira sjáum við!“. Við sjáum þetta raungerast í heimsóknum nemenda til okkar, þar sem verður til dýpri skilningur á listaverkinu sem skoðað er hverju sinni – skilningur sem situr eftir. Það er einstaklega dýrmætt, ekki síst í sífelldum hraða samtímans þar sem myndir dynja á okkur úr öllum áttum.

Þróunarverkefni
Verkefnið hófst í þróunarfasa þar sem hægt var að meta praktísk atriði og raunverulegan árangur. Listasafnið var í samstarfi við kennara og nemendur í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík þar sem verkefnið var á þróunarstigi skólaárið 2021 – 2022. Skólinn sendi alla nemendur á miðstigi til safnsins þar sem hver bekkur kom í 10 skipti í myndlæsisþjálfun. Með því samstarfi gátu sérfræðingar í fræðsluteymi safnsins lagt mat á árangur nemenda sem tóku miklum framförum á tímabilinu. Geta þeirra til þess að lesa í myndir og beita aðferðum myndlæsis varð áberandi góð, sjálfstraust nemenda í tjáningu jókst og færni þeirra í rökhugsun að sama skapi.

„Myndlæsið gaf nemendum okkar frábæra innsýn inn í listasögu Íslands, okkar menningararf. Að mæta á safnið var eins og að taka pásu frá amstri dagsins og fá tíma til að vera í ró og skoða og meta falleg verk. Börnin lærðu að gefa sér tíma og skoða málverk með ákveðnar spurningar í huga. Þannig lærðu þau merkingu verkanna og að kafa dýpra í huga listakonunnar eða listamannsins. Það kom skýrt fram hjá okkar nemendum að þau litu öðrum augum á heimsókn á safnið þegar fór að líða á verkefnið, þau voru farin að þekkja sig vel um á safninu. Safnið var ekki eins framandi heimur eins og áður. Áhuginn á list jókst klárlega hjá nemendum okkar” sögðu Linda Björk Sigmundsdóttir skólastýra, Unnur María Guðmundsdóttir og Björg Ragnheiður Vignisdóttir kennarar í Barnaskóla Reykjavíkur í endurgjöf sinni á þróunarverkefnið.

Sjónarafl er fræðsluefni sem kallað hefur verið eftir lengi, jafnt frá skólastofnunum í nærumhverfinu og frá skólastjórnendum og kennurum á landsbyggðinni sem  hafa ekki sama svigrúm til safnaheimsókna og skólar á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum nú þegar fengið pantanir frá kennurum sem vilja nota efnið og fleiri listasöfn nýta aðferðina í safnkennslu, bæði fyrir börn og fullorðna. Listasafn Íslands vinnur nú að því að efla þjónstu sína við landsbyggðina með Sjónarafli í fjarkennslu.

Listasafn Íslands sinnir lögbundnu menntunarhlutverki og með Sjónarafli og framsetningu þess er safnið að þróa nýja leið til þess að styðja við kennslu í mynd- og menningarlæsi með faglegum hætti út frá listaverkaeign þjóðarinnar, Aðalnámskrár leik- grunn- og framhaldsskóla, Barnasáttmálann og myndlistar- og menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Er það von okkar að verkefnið muni stuðla að auknum sýnileika myndlistar og að hún fái meira vægi við menntun komandi kynslóða.

Hér má nálgast námsefnið í vefverslun.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17