ÓLÖGLEGI INNFLYTJANDINN - VAR NÍNA TRYGGVADÓTTIR KOMMÚNISTI OG HÆTTULEG BANDARÍKJUNUM?

16.12.2015

Á 5. áratug síðustu aldar flutti Nína Tryggvadóttir til New York borgar í Bandaríkjunum þar sem hún skapaði sér nafn sem myndlistarkona. Þar í borg kynntist hún þýsk-ættaða vísindamanninum og listamanninum Al Copley. Þau giftu sig árið 1949 og allt leit út fyrir að ungu hjónin kæmu sér fyrir á Manhattan, umkringd skapandi vinum í hringiðu listasenunnar. En það sem þau héldu að yrði praktísk afgreiðsla á formsatriðum, þegar Nína ætlaði að snúa til baka til New York eftir dvöl hér heima, varð fljótt að eldvegg sem aðskildi þau Al um árabil. Á Íslandi töldu ákveðnir aðilar að Nína væri kommúnisti. „Barnabók eftir þig er kommúnískur áróður,“ sögðu þeir og bentu máli sínu til stuðnings á vini Nínu í Unuhúsi.

Hallgrímur Oddsson, blaðamaður og hagfræðingur, hefur farið í gegnum bréfasafn Nínu frá þessum árum. Í fyrirlestrinum Ólöglegi innflytjandinn rekur hann baráttu Nínu fyrir landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Ósk þeirra Al og Nínu mætti mikilli andstöðu bandaríska konsúlsins á Íslandi, í anda hræðsluáróðurs McCarty-isma þess tíma. Konsúllinn byggði afstöðu sína fyrst og fremst á upplýsingum frá óvildarmönnum Nínu í Reykjavík. Áður en yfir lauk teygði málið anga sína djúpt inn í bæði íslenskt og bandarískt stjórnmálakerfi og átti Nína eftir að dúsa með öðrum ólöglegum innflytjendum á Ellis Island. Skissur hennar og skeyti frá þeim tíma varpa ljósi á líðan hennar: „Elskan ég er á Ellis Island komdu og bjargaðu mér,“ sendi hún Al.

Hverjir voru þessir óvildarmenn Nínu? Er barnabókin Fljúgandi fiskisaga kommúnískur áróður sem beint er gegn bandarískum stjórnvöldum? Var Nína kommúnisti? Hvernig hafði álagið vegna aðskilnaðarins og langvarandi baráttu áhrif á líf og listamannsferil Nínu? Hallgrímur mun reifa þessar og fleiri spurningar og  rekja einstaka baráttu Nínu og Al fyrir sameiningu fjölskyldunnar í Bandaríkjunum.Athugið að sunnudagur 3. janúar er síðasti lokadagur sýningarinnar Nína Tryggvadóttir - Ljóðvarp

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17