SAFNADAGURINN 17. maí 2015 – LISTASAFN ÍSLANDS

12.5.2015

Sem höfuðsafn á sviði myndlistar gegnir Listasafn Íslands lykilhlutverki í varðveislu íslenskrar myndlistar og á það ekki síður við um vídeóverk og raflist en þá list sem unnin er með hefðbundnari tækni. Vasulka-stofa er stofnuð í samstarfi við Steinu og Woody Vasulka og hafa þau gefið safninu stóran hluta af gagnasafni sínu auk þess sem athyglinni er beint að varðveislu raf- og stafrænnar myndlistar um leið og verk Steinu og Woody Vasulka eru gerð gestum aðgengileg. Fólk er hvatt til að koma og kynnast starfsemi Vasulka-stofu og þeim verkefnum sem unnin eru í samstarfi við innlenda og erlenda aðila.

Vikuna fyrir safnadaginn stendur yfir námskeið sem unnið er í samvinnu Vasulka-stofu og Listasafns Íslands, Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Tækniháskólans í Brno í Tékklandi.

Afrakstur námskeiðsins verður til sýnis í Vasulka-stofu á safnadaginn. Þá verður einnig hægt að kynnast verkefninu PIPES sem unnið er í samvinnu við ZKM í Karlsruhe og taka þátt í hnattræna listviðburðinum GLOBALE þar sem þú átt þátt í að skapa listaverkið í samvinnu við aðra notendur myndræna „tungumálins“ iconuu, sem er myndrænt tungumál, netvæddur vettvangur og verkfæri myndræns samskiptamáta. Áhersla er lögð á virka þátttöku um leið og meginþemað er sköpun.

Í HUGSKOTI verða sýnd vídeólistaverk barna og unglinga. Á Barnamenningarhátíð 2015 var haldin listasmiðja í umsjón Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur. Verk þeirra á sýningunni endurspeglar vinnu þeirra þá fjóra daga sem námskeiðið fór fram og ljóst að þátttakendur litu til síns nánasta umhverfis og sýnir verkið hvað hægt er að skapa með einföldum búnaði, án mikillar fyrirhafnar og í skapandi umhverfi. Verkið JÁKVÆÐIR STRAUMAR er samstarfsverkefni ljósmyndarans Kristinu Petrošiutė og barnanna á frístundaheimilinu Draumaland, sem eru á aldrinum 6–9 ára. Þetta myndband sýnir börnin gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gleðja áhorfandann án þess að nota orð. Það sýnir okkur einnig hversu fjölbreytt hugtakið gleði getur verið í huga barnsins og hve mikilvægt það er að gleðja aðra.

Í HUGSKOTI geta ungir og aldnir staldrað við, skoðað fræðst og skapað.

KAFFISTOFA LISTASAFNS ÍSLANDS BÝÐUR GESTI VELKOMNA ÞAR SEM HÆGT ER AÐ NJÓTA GÓÐRA VEITINGA Í FALLEGU UMHVERFI MEÐ ÚTSÝNI YFIR TJÖRNINA! Meira um Íslenska safnadaginn 2015

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17