SAFNANÓTT 2019 Í LISTASAFNI ÍSLANDS

4.2.2019

HÁTÍÐ LJÓSS OG MYRKURS

Opnunartími safnanna

Listasafn Íslands opið frá kl. 10 – 23

Safn Ásgríms Jónssonar opið frá  kl. 13 – 23

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar opið frá kl. 18 – 23

Safnanæturstrætó

Við hvetjum gesti hátíðarinnar til að nýta sér sérstakan Safnanæturstrætó þeim að kostnaðarlausu. Strætóinn mun ganga á milli allra safna á höfuðborgarsvæðinu og auðveldar þannig gestum að heimsækja söfnin og taka þátt í Safnanæturleiknum.

 

LISTASAFN ÍSLANDS

 

Listasafn Íslands er hluti af Ljósahring VetrarhátíðarListasafn Íslands kynnir í samstarfi við Einkofa og Factory Light Festival: De:LUX á Vetrarhátíð í Reykjavík 7. – 10. febrúar 2019.

De:Lux er verkefni þar sem Norrænir listamenn koma saman og vinna að sameiginlegu vídeó- og tónlistarverki. Afrakstur þessarar vinnu verður sýndur framan á byggingu Listasafns Íslands við Fríkirkjuveg á Vetrarhátíð í Reykjavík dagana 7. – 10. febrúar 2019. Fyrsta verkefnið fór fram í Slemmestad í Noregi í september 2018 þar sem nýju verki var varpað á gamlan iðnaðarturn og sýnt á Factory Light Festival þar í landi. Annað verkefnið fór fram á Akranesi í nóvember 2018 sem hluti af Vökudögum, listahátíðar Akranesbæjar. Listamennirnir sem vinna að verkefninu eru: Anton Kaldal Ágústsson, Hafdís Bjarnadóttir, Ingrid Solvik og Reidun Solvik. Tveir framleiðendur frá Einkofa Production taka einnig þeir Stephen Nuttall og Lianray Pienaar.

Verkefnið er styrkt af Kulturråded – Arts Council Norway, Creative Europe Programme of the European Union, Nordisk Kulturfond, HljóðX, Reykjavíkurborg og Listasafni Íslands.

KL. 20 – 21

SÝNINGAROPNUN BEIRÚT, BEYRUT, BEYROUTH, BEYROUT

Opnunin hefst með ávörpum Ýrr Jónasdóttur safnstjóra Ystad Konstmuseum og Marianne Hultmann safnstjóra Oslo Kunstforening.

Á undanförnum árum hefur listalífið í Beirút fangað athygli umheimsins. Skýringuna er ekki aðeins að finna í einskærum hæfileikum, heldur einnig í myndlistarsenu sem sameinar ólíkar kynslóðir, skapar samhug, er full eldmóðs, örlát og er að sönnu alþjóðleg. Hún virðist – a.m.k séð utan frá – bjóða alla velkomna til þátttöku.

Sýningin Beirút, Beyrut, Beyrouth, Beyrout dregur fram og rýnir í sögu, samfélag og stjórnmál í flóknu þjóðfélagi. Heiti sýningarinnar vísar til þess menningarlega fjölbreytileika sem Líbanon og Austurlönd nær búa yfir en þau eiga sér langa sögu sem fjöltyngt fjölmenningarsvæði.

Sýningarstjórar eru Marianne Hultman, Ýrr Jónasdóttir og Birta Guðjónsdóttir. Sýningin var áður sýnd í Oslo Kunstforening, Noregi og í Ystads konstmuseum, Svíþjóð.Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.  

 

KL. 20:30 TROMPET-GJÖRNINGUR MAZEN KERBAJ Mynd- og tónlistamaðurinn Mazen Kerbaj frá Líbanon leikur á trompet gestum og gangandi til skemmtunar. Trompetleikurinn er tilþrifamikill gjörningur sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Sjálfur sýnir Kerbaj verk á sýningunni Beirút, Beyrut, Beyrouth, Beyrout. Kerbaj er víðfrægur sem einn af upphafsmönnum og frumkvöðlum á sviði frjáls hljómaspuna og tilraunatónlistar í Líbanon. Hann er meðstofnandi og virkur meðlimur í MILL, sambandi tónlistarmanna að baki Irtijal, árlegri spunatónlistarhátíð sem haldin hefur verið í Beirút síðan árið 2001 (www.irtijal.org), og var meðal stofnfélaga Al Maslakh, fyrstu tilraunatónlistarútgáfunnar á svæðinu, sem hóf starfsemi sína árið 2005.

Kerbaj reynir mikið á þanþol hljóðfærisins og fetar þannig í fótspor fyrirrennara á borð við Bill Dixon, Axel Dörner og Franz Hautzinger. Frá árinu 2000 hefur hann komið fram einn og með ýmsum hópum í Mið-Austurlöndum, Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum.

KL. 18 – 23

VIOLIN POWER I Í VASULKA STOFU 

Violin Power I er fyrsta sjálfstæða verk Steinu sem hún sýndi í árdaga The Kitchen, sýningarsalar, leikhúss og tilraunastofu sem þau hjónin Steina og Woody Vasulka ráku í aflögðu eldhúsi í kjallara Broadway Central-hótelsins í New York. Verkið vann hún á árunum 1970–1978. Í þessu sjálfstæða verki getum við fylgst með þróun hennar sem listamanns frá því hún á sínum yngri árum æfir sig á fiðluna og dansar síðan gegnum árin, allt þar til hún tekur undir með Bítlunum í laginu „Let it be“ sem æðrulaus þroskaður listamaður. Kaflaskipt stigmögnun og hrynjandi einkenna fjörugt myndskeiðið þar sem dans listakonunnar umbreytist í eins konar táknmynd menningar sem líkja má við óstöðvandi náttúruafl.

KL. 19 – 21

LISTAVERK ÞJÓÐARINNAR ERU NÚ AÐGENGILEG Á NETINUSérfræðingur Listasafns Íslands spjallar við gesti Safnanætur um miðlun íslenskra listaverka og þau tækifæri sem munu skapast við bætt aðgengi almennings að listaverkum þjóðarinnar.

Á vefnum sarpur.is getur þú fengið aðgang að upplýsingum um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og örnefnalýsingar ásamt öðru efni sem er varðveitt í söfnum landsins.

Með nýlegum samningi Listasafns Íslands við Myndstef er opnaður aðgangur að allri safneigninni og er markmið okkar að koma myndum af þeim rúmlega 13 þúsund verkum sem safnið á á vefinn í áföngum á næstu misserum. Þannig veitir Listasafn Íslands ríkulegt aðgengi að listasögu og þeim menningararfi sem safnið varðveitir.

Nú getur almenningur skoðað á netinu helstu lykilverk íslenskrar listasögu, skissur listamanna, teikningar og önnur gögn sem birt eru í safnmunaskrá safnsins. Sarpur.is skiptir sköpum varðandi kynningu, lærdóm og þekkingu á myndlistararfi þjóðarinnar.

KL. 10 – 23

POP-UP MARKAÐUR Í SAFNBÚÐ LISTASAFNS ÍSLANDS

Safnbúð Listasafns Íslands hefur á undanförnum árum staðið fyrir útgáfu á fallegum listaverkaplakötum sem fegra veggi heimilisins. Á Safnanótt verða plaköt og kort á sérstökum Pop-up markaði í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg 7. Nýleg plaköt sem slegið hafa í gegn síðustu daga ásamt eldri og sívinsælum plakötum á frábæru verði.

 

LISTASAFN SIGURJÓNS ÓLAFSSONAR

21:00 – 21:45

LISTAMANNASPJALL Listamannaspjall Svövu Björnsdóttur og Kristínar Jónsdóttur frá Munkaþverá sem báðar eiga verk á sýningunni Tengingar – Sigurjón Ólafsson og nokkrir samferðamenn hans. Umsjón: Birgitta SpurÁ sýningunni Tengingar – Sigurjón Ólafsson og nokkrir samferðamenn hans, eiga fjórtán myndlistarmenn sem allir tengdust Sigurjóni og list hans með einum eða öðrum hætti, samtal við verk Sigurjóns í fyrrum vinnustofu hans.

Listamennirnir eru Erlingur Jónsson, Gerður Helgadóttir, Gestur Þorgrímsson, Guðmundur Benediktsson, Guðmundur Elíasson, Hallsteinn Sigurðsson, Helgi Gíslason, Jón Benediktsson, Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá, Páll Guðmundsson frá Húsafelli, Svava Björnsdóttir, Sverrir Haraldsson, Tove Ólafsson og Örn Þorsteinsson.

Einkenni þeirra allra er ástríðan fyrir handverkinu, öll unnu þau að því markmiði að skapa rýmisverk, höggmyndir úr stein, eða þrívíð verk úr málmi, tré, pappír eða textíl.

Sýningarstjóri: Birgitta Spur

22:00 – 22:45

LEIÐSÖGN Í LISTASAFNI SIGURJÓNS ÓLAFSSONAR UM SÝNINGUNA ÍSLAND – LANDSLAG OG LITIR

Hlíf Sigurjónsdóttir leiðir gesti um sýninguna Ísland – landslag og litir. Sýningin er á efri hæð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar þar sem svissneska listakonan Sabine Hasler sýnir keramík úr steinleir.

Sabine Hasler hefur tengst safninu og aðstandendum þess vináttuböndum um áratuga skeið og árið 1993 hannaði hún og gerði bollastell úr ljósum steinleir fyrir kaffistofuna, prýtt merki safnsins. Síðan hefur hún oft komið til Íslands og á sýningunni birtast hughrif hennar frá íslenskri náttúru í glerjung og keramík. Málverk eftir Björgu Þorsteinsdóttur lýsir upp stigaganginn og tengir sýningarnar tvær.

Sýningarstjóri: Birgitta Spur

 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)