Mats Gustafson Að fanga kjarnann / Grasping the Essence
Sendiherra Svíþjóðar, Håkan Juholt opnar sýninguna
Sænski listamaðurinn Mats Gustafson fangar hverfulleik vatnslitarins af einstakri næmni. Á áttunda áratugnum hóf hann að vinna myndir fyrir tískuheiminn en helgaði sig æ meira eigin listsköpun þegar fram í sótti og hóf að verkja athygli. Í verkum sínum sveiflast listamaðurinn af mikilli leikni milli tískuheimsins, náttúrunnar og könnunar á umhverfinu. Myndefni verka hans virðast fábrotin: barrtré og steinar í náttúrunni, dádýr, andlitsportrett, tískuhönnun og nekt. En allt snýst þetta um að fanga fegurðina í sinni fjölbreyttu mynd. Listsköpun Mats er í senn fáguð og óræð. Pensildrættirnir eru nákvæmir, engin mistök leyfð. Ljósi og skugga er dreift líkt og taktvissum slætti á pappírinn. Litirnir renna saman og magna upp form.
Á sýningunni eru öll þekktustu verk Mats sem hann hefur unnið með tískuhúsum á borð við Christian Dior, Comme des garçons, Yohji Yamamoto, Romeo Gigli og Yves Saint Laurent og einnig fyrir tímarit eins og Vogue og Harper‘s Bazaar. Eins varpar sýningin góðu ljósi á vatnslitaseríur hans af náttúru, nekt og portrettum af samferðarfólki hans.
Mats er fæddur árið 1951 og býr og starfar í New York.
Sýningin er unnin í náinni samvinnu við Norræna vatnslitasafnið í Svíþjóð.
INNSETNING ÚR SAFNEIGN:
Katrín SigurðardóttirHigh Plane VI
Klukkan 18:00-23:00
Katrín Sigurðardóttir hefur um árabil kannað áhrif skynjunar í margháttuðum innsetningum sínum og verkum. High Plane VI (2001) kallar fram tengsl manna sín á milli og við náttúruna sjálfa. Afstæði stærða og umhverfis er ríkur þáttur í verkum Katrínar og í þessari innsetningu tekst hún á við gamalt og þekkt efni íslenskrar málaralistar, fjöllin og blámann og fjarlægðina – sem og stöðuga nánd listamannsins við íslenska náttúru þó að hann sé jafnvel staddur fjarri föðurlandinu. Verkið vísar einnig til hreinleikans og þess óflekkaða en skírskotar að auki til mismunandi viðmiða og sjónarhorna okkar mannanna eftir því hvert lífsleiðin liggur.
Sýningin er liður í því að kynna viðamikil verk og innsetningar samtímalistamanna úr safneign Listasafns Íslands. Gestir munu fá notið verksins með ólíkum hætti í þeirri breytilegu birtu sem einkennir árstíðir á Íslandi.
Katrín er fædd árið 1967 á Íslandi. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk BFA-gráðu við San Francisco Art Institute og MFA-gráðu frá Mason Gross School of the Arts, Rutgers University. Hún var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2013 og hafa verk hennar verið sýnd víða um heim á einka- og samsýningum.
Klukkan 18-21
Fjársjóðsleit fyrir yngstu gesti safnsins um sýninguna Fjársjóð Þjóðar.
-Þegar að við skoðum listaverk er mikilvægt að gefa sér góðan tíma, horfa vel á verkin, upplifa þau og spyrja sig spurninga sem tengjast þeim. Með fjárssjóðskortinu geta fjölskyldur og börn notið þess að skoða verkin nánar og séð þau í nýju ljósi – allir uppgötva eitthvað nýtt!
Skissugerð á safninu: Við hvetjum stóra sem smáa til skissugerða á meðan þeir skoða sýninguna. Við bjóðum upp á blöð og blýanta en einnig er velkomið að koma með sína eigin skissubók.
Það er hvetjandi að teikna. Hvetur, óháð aldri og getu til að hægja á okkur og tengjast verkunum á sýningunni. Ýmis smáatriði koma í ljós og upplifunin dýpkar til muna.
Fjársjóður þjóðar
Á sýningunni Fjársjóður þjóðar er úrval verka úr safneign Listasafns sem gefur yfirlit yfir þróun myndlistar á Íslandi frá upphafi 20. aldar. Í byrjun 20. aldar og fram á fimmta áratug hennar, var náttúra landsins aðalviðfangsefni íslenskra málara. Hún var í hugum manna tákn þess sem íslenskt var og birta og víðerni íslenskrar náttúru var það sem íslenskir listamenn töldu fegurst. Málverkið á þessum tíma þróaðist úr hinni rómantísku upphöfnu sýn 19. aldar á landið, eins og sjá má í verkum Þórarins B. Þorlákssonar og Ásgríms Jónssonar, yfir í nútímalegri hugsun sem einkennir myndlist Vestur-Evrópu á fyrri hluta 20. aldar hvað varðar formbyggingu, litanotkun og tjáningu listamannsins. Má þar fremst nefna Jón Stefánsson og Jóhannes S. Kjarval sem hleyptu nýjum straumum í myndlistarlífið á Íslandi og urðu fyrirmynd margra málara á þessum tíma.
Klukkan 10-23
Safnbúð Listasafns Íslands hefur á undanförnum árum staðið fyrir útgáfu á fallegum listaverkaplakötum sem fegra veggi heimilisins. Á Safnanótt verða öll plaköt á sértöku kynningarverði í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg 7. Nýleg plaköt sem slegið hafa í gegn síðustu daga ásamt eldri og sívinsælum plakötum á frábæru verði.
Megináhersla Safnbúðarinnar er kynning og sala á útgáfum safnsins, listaverkakortum og plakötum. Þar er einnig fáanleg listræn gjafavara tileinkuð söfnum, úrval íslenskra listmuna og hönnun.
Klukkan 20:30-21:00
Dansað á Safnanótt
Nemendur af framhaldsbraut Klassíska listdansskólans sýna brot úr dansverkinu Rooster eftir Barak Marshal sem þau hafa verið að læra í áfanganum söguleg dansverk. Kraftmikið dansverk með ákveðnum hreyfingum og tjáningu. Verkið er sviðsverk en er hér sett í nýtt samhengi þar sem dansarar tvinna saman brotum úr öðrum verkum sem þau hafa unnið með Ernesto Camilo og Díönu Rut Kristinsdóttur og færa dansinn í óhefðbundið rými í sal Listasafns Íslands.
Laugarnestanga 70
Safnið verður opið 18:00-23:00
Leiðsögn kl. 20:30
Birgitta Spur leiðir gesti um sýninguna Sjón er sögu ríkari kl.20.30 í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.
Á sýningunni eru fjölbreytt verk eftir Sigurjón sem hann gerði á árunum 1933 – 1982. Þetta eru natúralísk verk, abstraktsjón og frumdrög að nokkrum lykilverkum listamannsins sem hafa verið stækkuð og staðsett í opinberum rýmum svo sem Fótboltamenn (1936) sem stendur á Faxatorgi á Akranesi, Gríma (1947) sem stendur við Borgarleikhúsið í Reykjavík og frumdrög að Víkingi (1951) sem Sigurjón hjó í grástein og stendur fyrir utan Listasafn Íslands á Fríkirkjuvegi.
Sýningin hefur fjölþættan tilgang; að vekja almenna athygli á heildarskrá verka Sigurjóns á vefsíðu safnsins og benda kennurum á möguleika sem felast í því að nýta sér fræðsluefnið og koma á safnið með nemendum til að skoða verkin og eins til að hvetja foreldra til að leggja leið sína í safnið með börnum sínum og njóta leiðsagnar um sýninguna.
Í fræðslupakkanum Farvegurmyndlistar til framtíðar eru verkefni fyrir grunnskólanema sem fjalla um mörg verk á sýningunni. Þetta efni er á heimasíðunni ásamt ljósmyndum, leiðbeiningum til kennara og verkefnum fyrir nemendur. Dr. Alma Dís Kristinsdóttir og Birgitta Spur, ekkja listamannsins og stofnandi safnsins sömdu fræðsluefnið. Tilgangur fræðslupakkans er sá að grunnskólakennarar geti nýtt sér rafræna listaverkaskrá safnsins til kennslu og þannig kynnt listaverk Sigurjóns fyrir nemendum hvar sem er á landinu.
Bergstaðastræti 74
Safnið verður opið 13-23
Kvikmynd sýnd kl.19:00 og aftur kl.21:00
Kvikmynd um Ásgrím Jónsson
Í tilefni Safnarnætur verður heimildamynd sem Sjónvarpið lét gera um Ásgrím Jónsson (1876-1958), sýnd á gömlu vinnustofu og heimili Ásgríms, á Bergstaðastræti 74. Ásgrímur Jónsson er einn af fyrstu íslensku listmálurum sem komu fram á sjónarsviðið um og upp úr síðustu aldamótum. Íslenskt landslag og blæbrigði þess er höfuðviðfangsefni hans á löngum og frjóum listamannsferli. Í myndinni er vitjað eftirlætisstaða Ásgríms, svo sem Húsafells í Borgarfirði, þar sem hann undi löngum. Samferðamenn segja frá kynnum sínum af manni og málaranum og kynnt eru verk hans.
Fyrst sjónvarpað 22.apríl 1984
Gefið út af RÚV-sjónvarpi 1987
Umsjón: Hrafnhildur Schram
Stjórn upptöku: Þrándur Thoroddsen