„Það er mikill hugur í okkur að sameina þessi tvö söfn. Ég er viss um að söfnin muni bæði eflast og að myndlistin nái sterkari rödd út í samfélagið“, segir Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands. „Með auknum stuðningi náum við að lengja opnunartíma á Listasafni Einars Jónssonar og þannig ná fleiri gestum á safnið en á torgið fyrir framan Hallgrímskirkju koma tvær milljónir ferðamanna á hverju ári. Við þurfum að ná til almennra Íslendinga og nemenda á öllum aldri en söfnin þurfa líka að ná betur til ferðamanna. Verk Einars eru forvitnileg og safnið spennandi staður sem gefur innsýn inn í annan heim.
Nú á vormisseri mun Krakkaklúbburinn Krummi einnig hefja starfsemi sína í Listasafni Einars Jónssonar líkt og á Fríkirkjuvegi og í Safnahúsinu, þar sem börn í fylgd með fullorðnum geta kynnst verkum listamannsins í gegnum skapandi vinnu. Við verðum líka með stutt námskeið fyrir fullorðna þar sem Sigurður Trausti Traustason, safnfræðingur og sérfræðingur í verkum Einars mun segja frá myndheimi hans og táknfræði og Margrét H. Blöndal, myndlistamaður leiðir skoðun í gegnum teikningu á verkunum og þessu ævintýralega húsi.”
Síðast liðið ár hefur verið unnið að sameinginu þessara tveggja safna en stefna ríkisins er að sameina stofnanir, efla starfsemi þeirra og þjónustu við almenning og ná þannig meiri hagkvæmni. Menningarráðuneytið hefur leitt vinnuna sem hefur gengið vel og spennandi hugmyndir skotið upp kollinum. Margir starfsmenn Listasafns Einars Jónssonar munu halda áfram störfum og fyrrum stjórn safnsins mun fá nýtt hlutverk sem er að halda utanum afsteypsjóð Listasafns Einars Jónssonar og vera Listasafni Íslands til ráðgjafar.




