LOKAHELGI SÝNINGARHrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter Taugafold VII
Einn þekktasti sýningastjóri heims, Alanna Heiss, spjallar við Hrafnhildi Arnardóttur / Shoplifter í Listasafni Íslands, sunnudaginn 22. október 2017 kl. 13:30 á lokadegi sýningar hennar Taugafold VII.
Alanna Heiss er stödd á Íslandi í fyrsta sinn, í boði Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og Listasafns Íslands.Hrafnhildur Arnardóttir (f. 1969), einnig þekkt sem Shoplifter, er íslenskur myndlistarmaður sem búsett er í New York. List hennar hverfist að mestu um skúlptúra, staðbundnar innsetningar og veggverk, sem fjalla jafnan um hégóma, sjálfsmynd, tísku og goðsagnir í almannavitundinni. Hrafnhildur sækir áhrif frá dægurmenningu og fjöldaframleiðslu, auk alþýðulistar, naívisma og handverks, sem hefur mikil áhrif á sköpun hennar.
Fínlegur húmor gegnir stóru hlutverki í list Hrafnhildar og endurspeglast vel í notkun hennar á miklu magni marglits gervihárs, hárlenginga sem hún hnýtir, flækir og fléttar með hinu fallega og gróteska. Hún hefur unnið með listamönnum frá öllum heimshornum, þar á meðal íslensku tónlistarkonunni Björk en fyrir umslag plötu hennar Medúlla árið 2004 skapaði Hrafnhildur „hár-hjálm“. Árið 2008 starfaði Hrafnhildur með listahópnum a.v.a.f að verki fyrir framhlið MoMA; Samtímalistasafnsins í New York. Meðal nýjustu verka hennar er röð viðamikilla innsetninga, sem ber heitið Nervescape og hún hefur unnið sérstaklega fyrir stórar stofnanir, s.s. Nervescape IV á Norræna tvíæringnum í samtímamyndlist – Momentum 8, í Moss, Noregi árið 2015, Nervescape V , í Samtímalistasafni Queensland í Brisbane, Ástralíu árið 2016 og Nervescape VI í Fílharmóníunni í Los Angeles, Bandaríkjunum fyrr á árinu árið 2017. --Alanna Heiss (f. 1943) er mikilvirk og virt persóna í bandarískum listheimi. Hún er helsti leiðtogi hreyfingar í stofnun óhefðbundinna listrýma í New York, frá því snemma á áttunda áratugnum, sem breytti því á róttækan hátt hvernig staðið var í framhaldinu að stórum listverkefnum.Árið 1972 stofnaði hún sýningarýmið Clocktower Productions, sem hún starfrækti á Manhattan til ársins 2013. Og árið 1976 stofnaði hún P.S.1 Contemporary Art Center (sem nú er hluti af MoMA PS1), sem hún stýrði í 32 ár í Queens, og þekkt er um heim allan sem einn helsti sýninga- og framleiðsluvettvangur samtímalistar í heiminum.Alanna Heiss hefur stýrt yfir 700 sýningum í P.S.1 og í listasöfnum og sýningarýmum um allan heim. Hún stýrði Parísartvíæringnum í samtímamyndlist árið 1985 og bandaríska skálanum á Feneyjatvíæringnum árið 1986. Hún var jafnframt sýningarstjóri sérstaks sýningarverkefnis um John Cage á Feneyjatvíæringnum árið 1993. Hún var listrænn stjórnandi Shanghai-tvíæringsins í samtímamyndlist árið 2002 og hún var þátttakandi í Yokohama-þríæringnum í samtímamyndlist árið 2005.Alanna Heiss hefur hlotið helstu viðurkenningu New York borgar, svo og viðurkenningar frá franska ríkinu, Polar verðlaunin frá sænska konungdæminu og Skowhegan verðlaunin, öll fyrir framlag sitt til menningarmála, svo og CCS Bard verðlaunin fyrir framúrskarandi starf sem sýningarstjóri.Spjallið fer fram á ensku.Alanna Heiss heldur einnig fyrirlestur um feril sinn til 45 ára, mánudaginn 23. október kl. 12 í sal myndlistardeildar Listaháskóla Íslands, Laugarnesvegi 92.