SÍÐASTA SÝNINGARHELGI COMPARATIVE VANDALISM

15.1.2018

Í lok árs 1950 hóf hinn fjölhæfi listamaður Asger Jorn (1914–1973, Danmörku) að vinna að annars konar listasögu: sinni eigin „Skandinavísku samanburðarstofnun um vandalisma“ (e. Scandinavian Institute of Comparative Vandalism). Jorn ætlaði sér það verkefni að skapa alfræðirit í 32 bindum, sem fjalla skyldi um norræna alþýðulist, en tugir þúsunda ljósmynda hans fyrir verkefnið enduðu ónotaðar í gríðarlega stóru skjalasafni. Sýningin Comparative Vandalism byggir á þessum ljósmyndum. Asger Jorn varði sumrinu 1964 á Gotlandi, lítilli eyju í Svíþjóð. Dvöl hans þar var hluti af listasöguverkefninu sem hann nefndi „10.000 ár norrænnar alþýðulistar“ (e. 10.000 Years of Nordic Folk Art). Hann hafði um árabil helgað rannsóknarferðir þessu verkefni – með það að markmiði að skapa og koma á prent 32 listbókverkum, sem samanstæðu aðallega af hans eigin ljósmyndum. Upphaflega var honum lofað stuðningi frá fræðaheiminum, en fjármögnunin varð aldrei að veruleika og tugþúsundir ljósmynda hans urðu þess í stað að viðamiklu skjalasafni, sem hann kallaði „Scandinavian Institute of Comparative Vandalism“. Sýningin gefur mynd af nálgun Jorns og sýnd eru um eitt hundrað kontaktprent (e. contact-sheets) frá ferð hans til Gotlands árið 1964. Með hugmyndinni um samanburð á sýnilegum ummerkjum um vandalisma sem upphafspunkt, leitaðist Jorn við að endursemja listasöguna og endurhugsa vinnuferli listamannsins. Tæknilega séð mætti skynja undiröldu einstakra, sjónrænna stíla er teygja anga sína frá þjóðflutningatímabilinu og Vandölum, undiröldu sem erfitt er að skilgreina. Gæti alþýðulistin sett okkur í beint samband við listrænan ásetning, sem týnst hefur í nútímavæðingunni?  

Í ljósmyndunum eru viðfangsefnin aðskilin frá samhengi sínu. Uppstækkanir þeirra gera okkur kleift að bera saman form, og forsögulegur tími, miðaldir og samtíminn eru sameinuð í fornleifafræðilegu samklippi mismunandi mynda.

Sýningarstjóri: Henrik Andersson

Mynd: kontaktsíða frá verkefni Asgers Jorn, Scandinavian Institute for Comparative Vandalism, um 10.000 ár norrænnar alþýðulistar (Hablingbo í Gotlandi, Svíþjóð), 1964.Með leyfi Donation Jorn,  Ljósmynd: Ulrik Ross / Asger Jorn.Hugmynd: Asger Jorn. Frá SISV-arkífi, Museum Jorn, Silkiborg, Danmörku.Með stuðningi sænsku samtímamyndlistarstofnunarinnar, IASPIS

 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17