LISTÞRÆÐIR – SÍÐASTA SÝNINGARHELGI OG LEIÐSÖGNSunnudaginn 24. janúar kl.14 á síðasta sýningardegi Listþráða leiðir Dagný Heiðdal sýningarstjóri gesti um sýninguna.Skráningar er óskað vegna samkomutakmarkana í síma 515-9600.Á aldarafmæli Ásgerðar Búadóttur gefst tilefni til að horfa sérstaklega til vefnaðar og þráðlistar í íslenskri samtímalist og þess hvernig listamenn hafa notað þráðinn, þennan fjölbreytta efnivið; spunnið hann, litað, ofið og formað eftir öllum kúnstarinnar reglum.
Textíllistin er yfirgripsmikil listgrein með langa sögu og fjölda skilgreindra aðferða sem krefjast einatt mikillar kunnáttu og færni. Í dag ríkir mikil gróska í þráðlistinni, bæði hér á landi og erlendis, og hafa yngri kynslóðir listamanna sýnt þræðinum sem efniviði mikinn áhuga.Endurspeglast það meðal annars í því hvernig mörk listgreina hafa máðst út á síðustu áratugum. Í verkum margra samtímalistamanna má einnig greina tilraunakenndar leiðir og uppbrot á viðteknum aðferðum textíllistar sem sýnir okkur hvernig rótgróin listsköpun getur öðlast nýja vídd.
Í safneign Listasafns Íslands er nokkur fjöldi listaverka þar sem unnið er með þráð sem efnivið með margvíslegum hætti. Við val á verkum fyrir sýninguna var einnig leitað í safneignir annarra listasafna og í einkasöfn. Listaverkin á sýningunni endurspegla ólíkar aðferðir listamanna, þráðinn í sinni hefðbundnu mynd innan rótgróinna aðferða sem og óvæntar og nýstárlegri útfærslur þar sem þráðurinn gegnir aðalhlutverki.Sýningarstjórar:Dagný Heiðdal og Harpa Þórsdóttir.
Reglum um fjöldatakmarkanir er framfylgt með talningu gesta.