SJÓN ER SÖGU RÍKARI

14.10.2019

Sýning á verkum Sigurjóns Ólafssonar, SJÓN ER SÖGU RÍKARI verður opnuð í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, laugardaginn 19.október kl. 15.

Á sýningunni eru fjölbreytt verk eftir Sigurjón sem hann gerði á árunum 1933 – 1982. Þetta eru natúralísk verk, abstraktsjón og frumdrög að nokkrum lykilverkum listamannsins sem hafa verið stækkuð og staðsett í opinberum rýmum svo sem Fótboltamenn (1936) sem stendur á Faxatorgi á Akranesi, Gríma (1947) sem stendur við Borgarleikhúsið í Reykjavík og frumdrög að Víkingi (1951) sem Sigurjón hjó í grástein og stendur fyrir utan Listasafn Íslands á Fríkirkjuvegi.

Sýningin hefur fjölþættan tilgang; að vekja almenna athygli á heildarskrá verka Sigurjóns á vefsíðu safnsins og benda kennurum á möguleika sem felast í því að nýta sér fræðsluefnið og koma á safnið með nemendum til að skoða verkin og eins til að hvetja foreldra til að leggja leið sína í safnið með börnum sínum og njóta leiðsagnar um sýninguna.

Í fræðslupakkanum Farvegurmyndlistar til framtíðar eru verkefni fyrir grunnskólanema sem fjalla um mörg verk á sýningunni. Þetta efni er á heimasíðunni ásamt ljósmyndum, leiðbeiningum til kennara og verkefnum fyrir nemendur. Dr. Alma Dís Kristinsdóttir og Birgitta Spur, ekkja listamannsins og stofnandi safnsins sömdu fræðsluefnið. Tilgangur fræðslupakkans er sá að grunnskólakennarar geti nýtt sér rafræna listaverkaskrá safnsins til kennslu og þannig kynnt listaverk Sigurjóns fyrir nemendum hvar sem er á landinu.

Nánar um fræðslu- og viðburðadagskrár á www.listasafn.is

Mynd: Sigurjón Ólafsson, Fótboltamenn, 1936

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17