Sjónarafl um land allt!

23.9.2025

Listasafn Íslands og listamiðstöðin Skaftfell á Seyðisfirði stóðu í vikunni fyrir námskeiðum í myndlæsi fyrir kennara í tengslum við sýninguna Kjarval á Austurlandi Sýningin hefur verið einkar vel sótt, bæði af ferðamönnum og þeim sem búa á Austurlandi. Sýningin stendur til 4. Október 2025.

Námskeiðin sem fram fóru í Skaftfelli voru kennd af fræðslusérfræðingum Listasafns Íslands og ætluð kennurum á öllum skólastigum sem og safnkennurum á svæðinu. Námskeiðin Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi byggja á samnefndri bók úr smiðju safnsins og hafa þau notið mikilla vinsælla meðal kennara og menningarstofnanna. Unnið er með samræðuaðferð sem miðar að því að auka þekkingu og skilning nemenda á myndlist og sjónrænum menningararfi. Þá tengist myndlæsisþjálfun beint inn í hæfniviðmið aðalnámsskrár þar sem unnið er með lykilhæfni tjáningar og miðlunar auk skapandi og gagnrýnnar hugsunar.

2024 hlaut Listasafn Íslands tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna fyrir útgáfu og eftirfylgni bókarinnar Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi.

Safnið hefur staðið fyrir fjarkennslu í efninu ásamt því að ferðast um landið, nú síðast til Seyðisfjarðar en þar áður hefur Listasafnið haldið námskeið á Akureyri í samstarfi við Listasafnið á Akureyri og á Ísafirði í samstarfi við Listasafn Ísafjarðar. Áhersla er lögð á samtal og þjónustu við landsbyggðina með þessum hætti sem er hluti af kjarnastarfssemi safnsins.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga 10–17