Jón Proppé listheimspekingur flytur erindið Skapandi andspyrna: Framsæknir listamenn í skugga fasismans í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, sunnudaginn 12. nóvember kl. 15.
Jón mun fjalla um mótunarár danskrar framúrstefnulistar í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar þar sem íslenskir listamenn tóku drjúgan þátt, einkum Sigurjón Ólafsson og Svavar Guðnason. Eftir hernám Þjóðverja í apríl 1940 gaf þessi hópur út tímaritið Helhesten þar sem þau þróuðu hugmyndir sínar áfram undir merkjum "skapandi andspyrnu". Asger Jorn var einn af þeim yngstu í hópnum en hugmyndaauðgi hans og sýn á listir, stjórnmál og heimspeki hafði djúp áhrif á hin þótt leiðir skildu fljótlega eftir stríðslok. Listamennirnir sem þarna komu að mörkuðu djúp spor í evrópska listasögu, hver á sinn hátt, og þá ekki síst á Íslandi.
Jón Proppé (fæddur 1962) lærði heimspeki við Illinois-háskóla í Bandaríkjunum en hefur búið og starfað í Reykjavík í nær þrjá áratugi. Hann hefur skrifað mikið um menningu og listir, hundruð sýningarumfjallana, greina og bókakafla, auk texta í á annað hundrað sýningarskráa. Jón er einn höfunda nýju listasögunnar sem út kom í fimm bindum árið 2011 og vinnur nú að fleiri bókum um íslenska myndlist og menningu, ásamt því að sinna stundakennslu við Listaháskóla Íslands og sýningarstjórnun fyrir listasöfn.