SÖNGVAR FRÁ ATLANTSHAFSSTRÖNDUM - GUÐRÚN JÓHANNA ÓLAFSDÓTTIR OG FRANCISCO JAVIER JÁUREGUI
1.7.2016
Tuttugasta og áttunda Sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafsson hefst í safninu á Laugarnesi þriðjudagskvöldið 5. júlí. Haldnir verða sjö tónleikar í júlí og fram í ágúst og er yfirlit tónleikaraðarinnar að finna á vefsíðum safnsins: www.LSO.is. Einnig hefur verið gefinn út bæklingur um tónleikaröðina sem hægt er að nálgast í safninu, á ferðamannastöðum, eða fá sendan heim, ef þess er óskað hjá LSO@LSO.is eða í síma safnsins 553 2906.
Á upphafstónleikum sumarsins syngur Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir við meðleik klassíska gítarleikarans Francisco Javier Jáuregui, lög sem öll eiga rætur sínar að rekja til stranda Atlantshafsins. Þau flytja ensk lútulög eftir John Dowland og Philip Rosseter, íslensk sönglög eftir Jón Ásgeirsson og lög eftir þau sjálf, sem og basknesk og bresk þjóðlög í útsetningum Jáuregui.
Guðrún hefur unnið til fjölmargra verðlauna á erlendri grundu, komið fram í óperum og sungið m.a. með Sinfóníuhljómsveitum Íslands, Madrídar, St. Pétursborgar og Philharmonia Orchestra í London. Guðrún og Javier eru búsett í Madríd, en þau halda reglulega tónleika víða um Evrópu og hafa tekið upp þrjá geisladiska saman.
Tónleikarnir hefjast að vanda klukkan 20:30 og standa í um það bil eina klukkustund. Kaffistofa safnsins er opin eftir tónleikana og þar gefst tónleikagestum kostur á að hitta flytjendurna.