SPEGILMYND –NÝ SÝNING Í SAFNI ÁSGRÍMS JÓNSSONAR

7.10.2015

Sunnudaginn 11. október kl. 14 verður opnuð sýningin Spegilmynd í Safni Ásgríms Jónssonar, Bergstaðastræti 74. Þar má sjá úrval sjálfsmynda eftir Ásgrím Jónsson. Sama dag kl. 15 verður Rakel Pétursdóttir, deildarstjóri rannsókna og Safns Ásgríms Jónssonar, með leiðsögn um sýninguna.

Í safneigninni er að finna 29 verk með heitinu Sjálfsmynd. Elstu sjálfsmyndina af þeim sem til eru í safninu málaði Ásgrímur sama árið og hann hóf nám við Listaháskólann í Kaupmannahöfn, árið 1900. Á dönskum söfnum hafði hann aðgang að úrvali myndlistar eftir marga helstu listamenn álfunnar. Meðal verka sem hann hreifst af voru mannamyndir eftir hollenska meistarann Rembrandt van Rijn (1606–1669) þar sem listamaðurinn lýsir fyrirmyndina á nýstárlegan hátt. Rúmlega tvítugur endurskapar Ásgrímur ásjónu sína með olíulitum á striga þar sem hann horfir rannsakandi á sjálfan sig í speglinum. Það á einnig við um þær óvægnu myndir sem hann, þá á áttræðisaldri, dregur upp í einni hendingu með vatnslitum. Í þessum sjálfsmyndum má fylgja listamanninum gegnum lífið og fylgja þróun hans sem listamanns. Báðir þeir listamenn sem Ásgrímur dáði hvað mest, Rembrandt og Vincent van Gogh notuðu sjálfsmyndina sem tjáningu lita, ljóss og skugga og jafnvel leið til dýpri sjálfsskilnings og sjálfsagt hefur Ásgrímur verið meðvitaður um þýðingu slíkrar iðju eins og þeir sem nú til dags taka markvisst sjálfskot. Vinnustofa listamannsins skapar verkunum persónulega umgjörð og nánd. Sýningin Spegilmynd kallast á við yfirstandandi sýningu í Listasafni Ísland, Valin portrett í safneign Listasafns Íslands – Frá sveitungum til sjálfskota í sal 3 sem standa mun til 1. nóvember.

prenta frétt

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17