STEINUNN GUNNLAUGSDÓTTIR HLÝTUR VIÐURKENNINGU ÚR SJÓÐI RICHARDS SERRA

26.3.2021

Tíundi myndlistarmaðurinn sem hlýtur viðurkenningu úr Sjóði Richards Serra er Steinunn Gunnlaugsdóttir.

Það var samdóma álit stjórnar sjóðsins að Steinunn sé verðugur fulltrúi þessarar viðurkenningar. Í verkum hennar sjáum við það stórtæka svið sem skúlptúrinn býr yfir sem listmiðill, bæði hvað fjölbreytta efnisnotkun varðar og til hugmyndalegrar framkvæmdar. Verk Steinunnar endurspegla mikilvægi skúlptúrsins sem listmiðils í okkar samtíma.

Steinunn er fædd í Reykjavík árið 1983 og útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2008 og tók þátt í opnu listnámi menningarstofnunarinnar Ashkal Alwan í Beirút í Líbanon veturinn 2013-2014. Nýlega var hún tilnefnd sem myndlistarmaður ársins, fyrir verkið sitt Litla hafpulsan sem sýnt var á Cycle Music And Art – Þjóð meðal þjóða 2018.

Steinunn hefur vakið verðskuldaða athygli á síðustu árum fyrir ögrandi og oft á tíðum stórtæka hugsun sem verk hennar sýna svo glögglega. Hún vinnur þvert á miðla en undirliggjandi í allri hennar listsköpun er samfélagsrýni, hárbeitt gagnrýni, þar sem hún tekur fyrir ólík viðfangsefni og klæðir í mismunandi búning athafna, videoverka, innsetninga og skúlptúra. Auk þess hefur Steinunn unnið ýmis samvinnuverkefni með öðrum listamönnum.

Steinunn sýnir oft á tíðum hugrekki með framgöngu sinni og ýmsum uppákomum innan myndlistarsenunnar, til dæmis með því að spila með verkum sínum á ráðandi öfl og fara út á ystu nöf, líkt og anarkistinn sem engu eirir.

Í verkum hennar birtist frásögn mannlegrar tilveru, mannúð, hárfín næmni og örugg vinnubrögð þegar hún bregst við málefnum líðandi stundar.

Viðfangsefni hennar eru sprottin frá málefnum sem samfélagið er að kljást við, hvort sem það er litla þorpið við sjávarsíðuna eða heimsþorpið. Steinunn fer um og skilur eftir sig slóð verka, rétt eins og fótspor póstmannsins sem fór um og flutti fréttir. Beinskeytni og hispursleysi eru lykilorð þegar verk Steinunnar eru skoðuð en hún gæðir merkingarþrungnum verkum sínum hæfilegum skammti af húmor og skapar þannig jafnvægi í frásögn þess sem liggur henni á hjarta.

***

Stjórn Sjóðs Richards Serra:

Eygló Harðardóttir myndlistarmaður

Hekla Dögg Jónsdóttir myndlistarmaður

Harpa Þórsdóttir, formaður sjóðsins - safnstjóri Listasafns Íslands

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17