Fullt var út úr dyrum á frábærum tónleikum Gunnars Kvaran sellóleikara og Helgu Bryndísar Magnúsdóttur píanóleikara í Listasafni Sigurjóns á Laugarnesi á þriðjudagskvöldið var. Urðu margir frá að hverfa og því verða tónleikarnir endurteknir fimmtudagskvöldið 6. júlí.
Sumartónleikar fimmtudaginn 6. júlí kl. 20:30 í Listasafni Sigujóns Ólafssonar
Gunnar Kvaran sellóleikari og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari.Tólf tilbrigði í G dúr WoO 45 við stef úr Judas Maccabaeus eftir Händel, og Sjö tilbrigði í Es dúr WoO 46 við stef úr Töfraflautu Mozarts, hvoru tveggja eftir Ludwig van Beethoven. Sónata ópus 40 eftir Schostakovits og frumflutningur verksins Til Merete eftir Jónas Tómasson.
Að hlýða á sumartónleika Listasafns Sigurjóns Ólafsson er að upplifa sumarkvöld við sæinn með ljúfri tónlist og heimsklassa höggmyndalist − umvafin sögu staðarins, allt frá landnámi til nútíma.
Tónlistin hefur ætíð skipað háan sess í þrjátíu ára metnaðafullu menningarstarfi Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Heimili þeirra hjóna Birgittu og Sigurjóns ómaði af tónlist, öll fjögur börn þeirra lærðu á hljóðfæri og þrjú þeirra lögðu tónlist fyrir sig. Þegar vinnustofa Sigurjóns var endurbyggð til að hýsa safn verka hans, var til þess hugað að stóri salur safnsins hentaði vel til tónleika og þangað var keyptur Bösendorfer konsertflygill. Sumartónleikar Listasafns Sigurjóns eru löngu orðnir fastir viðburðir í Reykjavíkurborg og í ár verða haldnir sjö tónleikar, á hverju þriðjudagskvöldi frá og með 4. júlí.
Gunnar Kvaran er fæddur í Reykjavík árið 1944. Hann hóf tónlistarnám í Barnamúsíkskólanum þar sem kennari hans var Dr. Heinz Edelstein. Síðar nam hann við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Einari Vigfússyni og Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn hjá Erling Blöndal Bengtsson og hjá Reine Flachot í Basel. Gunnar hefur kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík í þrjátíu ár og var ráðinn prófessor við tónlistardeild Listahá- skóla Íslands haustið 2005. Auk fastra starfa hefur hann haldið einleiks- og kammertónleika í mörgum Evrópulöndum, Bandaríkjunum og Kanada, m.a. í Wigmore Hall í London, Carnegie Hall í New York, í Beethoven Haus í Bonn og Mendelssohn Haus í Leipzig. Hann er tíður gestur á tónlistarhátíðum í Bandaríkjunum og í Evrópu. Gunnar hefur margsinnis leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, komið fram í útvarpi og sjónvarpi og allmargar hljómplötur og diskar hafa verið gefnir út með leik hans. Gunnar var valinn bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 1996 og var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu í júní 2006.
Helga Bryndís Magnúsdóttir lauk einleikara- og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, undir leiðsögn Jónasar Ingimundarsonar og stundaði síðan framhaldsnám við Konservatoríið í Vínarborg og Sibeliusarakademíuna í Helsinki. Hún hefur haldið fjölmarga einleikstónleika, m.a. á Listahátíð í Reykjavík og var fengin til að leika einleik í beinni sjónvarpsútsendingu í samnorræna spurningaþættinum Kontrapunkti. Þá hefur hún leikið einleik með hljómsveitum, m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, píanókonserta eftir Ravel, Poulenc, Brahms, Gershwin og J.S. Bach. Hún hefur komið fram sem meðleikari með mörgum fremstu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins, hljóðritað marga geisladiska og tekið upp fyrir útvarp og sjónvarp í samstarfi við aðra. Helga Bryndís er meðlimur í Caput hópnum og hefur leikið með honum víða hérlendis sem erlendis og inn á geisladiska. Hún starfar sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólana í Kópavogi, Reykjanesbæ og á Akureyri.
Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 20:30 og standa án hlés í því sem næst eina klukkustund. Kaffistofa safnsins er opin eftir tónleikana og gefst gestum kostur á að hitta flytjendur þar. Miðasala er við innganginn og aðgangseyrir er 2.500 kr. Tekið er við greiðslukortum.
Listasafn Sigurjóns ÓlafssonarLaugarnestangi 70Heimasíða: www.lso.is