SUNNUDAGSLEIÐSÖGN MEÐ SAFNSTJÓRA LISTASAFNS ÍSLANDS

10.6.2020

Sunnudaginn 14. júní kl.14 leiðir Harpa Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Íslands gesti um sýninguna Að fanga kjarnann / Mats Gustafson.Aðgangseyrir á safnið gildir, frítt fyrir meðlimi Selmuklúbbsins.Sænski listamaðurinn Mats Gustafson fangar hverfulleik vatnslitarins af einstakri næmni. Á áttunda áratugnum hóf hann að vinna myndir fyrir tískuheiminn en helgaði sig æ meira eigin listsköpun þegar fram í sótti og hóf að vekja athygli.Í verkum sínum sveiflast listamaðurinn af mikilli leikni milli tískuheimsins, náttúrunnar og könnunar á umhverfinu. Myndefni verka hans virðast fábrotin: barrtré og steinar í náttúrunni, dádýr, andlitsportrett, tískuhönnun og nekt.En allt snýst þetta um að fanga fegurðina í sinni fjölbreyttu mynd. Listsköpun Mats er í senn fáguð og óræð. Pensildrættirnir eru nákvæmir, engin mistök leyfð. Ljósi og skugga er dreift líkt og taktvissum slætti á pappírinn. Litirnir renna saman og magna upp form.Á sýningunni eru öll þekktustu verk Mats sem hann hefur unnið með tískuhúsum á borð við Christian Dior, Comme des garçons, Yohji Yamamoto, Romeo Gigli og Yves Saint Laurent fyrir tímarit eins og Vogue og Harper‘s Bazaar. Einnig varpar sýningin góðu ljósi á vatnslitaseríur hans af náttúru, nekt og portrettum af samferðarfólki hans.Mats er fæddur árið 1951 og býr og starfar í New York.Sýningin er unnin í náinni samvinnu við Norræna vatnslitasafnið í Svíþjóð.

Verið öll velkomin í heimsókn

Tengiliður dagskrár: Guðrún J. Halldórsdóttir gudrun@listasafn.is

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17