Leiðsögn listamanns, Huldu Hákon um sýninguna HULDA HÁKON / HVERRA MANNA ERTU? Sunnudaginn 29. september kl. 14Aðgangseyrir á safnið gildir, frítt fyrir meðlimi Selmuklúbbsins.HULDA HÁKON / HVERRA MANNA ERTU?YFIRLITSSÝNING Á VERKUM HULDU HÁKONListasafn Íslands efnir til yfirlitssýningar á verkum Huldu Hákon sem á nú að baki hátt í fjörutíu ára feril. Hulda markaði sér fljótt sérstöðu í íslenskri listasögu bæði í efnisvali og myndmáli. Flest verka hennar eru lágmyndir og eru elstu verkin gerð úr spýtnabraki. Lágmyndirnar sem hún smíðaði þóttu frumleg viðbót við flóru Nýja málverksins og óvænt andsvar við hið ríkjandi taumleysi sem einkenndi listsköpun ungs fólks á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar.Hulda hefur alla tíð skoðað umhverfi sitt og samfélag okkar með gagnrýnum hætti og umhverfisvitund, neysluhyggja og samskiptahefðir eru meginviðfangsefni verka hennar. Hún sækir í sagnaarf Íslendinga og sviðsetur í verkum sínum hetjur, fólk, dýr og ýmsar aðstæður sem geta verið séríslenskar eða sammannlegar. Inn í frásagnir sínar fléttar hún skilaboð, misvísandi texta sem ljá gjarnan verkum hennar víðari merkingu.Hulda Hákon er fædd í Reykjavík árið 1956. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum við Tjörnina nam hún við Nýlistadeild Myndlista- og handíðaskólans í Reykjavík. Þaðan fór hún til New York og stundaði framhaldsnám við School of Visual Arts og flutti heim að loknu námi árið 1985. Verk Huldu er víða að finna, meðal annars í safneignum helstu listasafna landsins, Kiasma-samtímalistasafninu í Helsinki, Listasafni Malmöborgar í Svíþjóð og einkasöfnum víða um heim.Verkin á sýningunni spanna allan feril Huldu, frá 1983 til 2019. Auk þeirra sýnir Listasafn Íslands viðtalsmynd við listamanninn sem unnin var sérstaklega í tengslum við sýninguna.Sýningarstjóri er Harpa Þórsdóttir.