Listasafn Íslands 6.11 - 17.1.2016
Nína Sæmundsson (1892–1965) var fyrsta íslenska konan sem gerði höggmyndalist að ævistarfi. Hún fæddist inn í bændasamfélag 19. aldar þar sem fáar konur í alþýðustétt fengu tækifæri til að ráða lífi sínu og láta draumana rætast en upphafið að ferli hennar varð ævintýri líkast. Á þriðja áratug síðustu aldar bjó hún í helstu listamiðstöðvum hins vestræna heims, í Róm, París og New York en saga hennar er öðrum þræði saga mikilla sigra, en um leið harmrænna örlaga sem höfðu mikil áhrif á líf hennar. Nína bjó frá upphafi yfir miklum viljastyrk og brennandi áhuga á listum og þróaði sinn klassíska stíl, sem hún var trú lengi framan af ferlinum, en þar sameinar hún hið stórbrotna og hið innilega. Hin uppreista manneskja varð eitt af helstu þemum hennar, ásamt andlitsmyndum, sem hún gerði að sérgrein sinni.
Þann 30. október kemur út út bókin Nína S. sem fjallar um verk og ævi Nínu Sæmundsson. Höfundur er sýningarstjórinn Hrafnhildur Schram og útgefandi Crymogea.Bókin verður til sölu í Safnbúð Listasafns Íslands.
Safn Ásgríms Jónssonar 11.10 - 30.11.2015
Í safneigninni er að finna 29 verk eftir Ásgrím með heitinu Sjálfsmynd. Elstu sjálfsmyndina af þeim sem til eru í safninu málaði Ásgrímur Jónsson á sama árinu og hann hóf nám við Listaháskólann í Kaupmannahöfn, árið 1900. Á dönskum söfnum hafði hann aðgang að úrvali myndlistar eftir marga helstu listamenn álfunnar. Meðal verka sem hann hreifst af voru mannamyndir eftir hollenska meistarann Rembrandt van Rijn (1606-1669) þar sem lýsingin er listform í sjálfu sér. Rúmlega tvítugur endurskapar Ásgrímur ásjónu sína með olíulitum á striga þar sem hann horfir rannsakandi á sjálfan sig í speglinum. Það á einnig við um þær óvægnu myndir sem sami maður, þá á áttræðisaldri, dregur upp í einni hendingu með vatnslitum. Vinnustofa listamannsins skapar verkunum persónulega umgjörð og nánd.
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar 17.10 - 29.11 2015
Í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi setur Listasafn Sigurjóns Ólafssonar upp sýningu á klassískum portrettum af konum í túlkun Sigurjóns ásamt öðrum verkum hans, sem höggvin eru í stein eða tré þar sem kvenímyndinni – Das Ewig-Weibliche – er lýst og tekur á sig ímynd gyðjunnar.
Sigurjón Ólafsson (1908–1982) er meðal þekktustu portrettlistamanna Norðurlanda og eftir hann liggja rúmlega 200 andlitsmyndir. Flestar eru þær af karlmönnum í ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu, en kvenportrett Sigurjóns eru síður þekkt, að undanskilinni myndinni sem hann gerði af móður sinni, Guðrúnu Gísladóttur, árið 1938. Fyrir þá mynd hlaut Sigurjón hin eftirsóttu dönsku Eckersberg-verðlaun árið 1939. Ríkislistasöfn þriggja Norðurlanda eiga eintök af þeirri mynd.