SÝNINGARSTJÓRI FULLVELDISSÝNINGAR RÁÐINN

8.1.2018

Sigrún Alba Sigurðardóttir hefur verið ráðin sýningarstjóri fullveldissýningarinnar sem opnuð verður í Listasafni Íslands um miðjan júlí 2018.

Sigrún var ein 19 umsækjenda um tímabundið starf í fjóra mánuði. Verkefnisstjórn um sýninguna (skipuð forstöðumönnum Árnastofnunar, Þjóðskjalasafns og Listasafns Íslands) fór yfir umsóknirnar. 

Sigrún mun hafa vinnuaðstöðu á Listasafni Íslands en vinna náið með sýningarnefnd og verkefnisstjórn.Í sýningarnefnd sitja Þórunn Sigurðardóttir og Ólafur Raastrick fyrir hönd Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Unnar Ingvarsson fyrir hönd Þjóðskjalasafns Íslands og Birta Guðjónsdóttir fyrir hönd Listasafns Íslands. 

Sigrún Alba Sigurðardóttir lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og cand.mag.-prófi í menningarfræði og menningarmiðlun frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2004. Hún hefur gefið út fjölda fræðigreina og bóka um sagnfræðileg og menningarfræðilegt efni, t.a.m. Snert á arkitektúr (2017), Afturgöngur og afskipti af sannleikanum (2009) og Elskulega móðir mín, systir, bróðir, faðir og sonur (1999). Sigrún Alba hefur starfað sem sýningahöfundur og sýningastjóri, m.a. við Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Árnesinga auk þess að starfa með listamönnum og söfnum að ýmsum verkefnum. Sigrún hefur verið aðjunkt við Listaháskóla Íslands frá árinu 2008 og lektor frá árinu 2012 auk þess að sinna ýmsum stjórnarstörfum fyrir skólann. 

 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)