TÓNLEIKAR Í LISTASAFNI SIGURJÓNS ÓLAFSSONAR

11.3.2015

Í tilefni af sýningunni á Íslandsteikningum danska málarans Johannesar Larsen verður Hlíf Sigurjónsdóttir, fiðluleikari, með dagskrá í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar sunnudaginn 15. mars kl. 15:00, sem ber heitið Hugvekja í tali og tónum -Um menningarleg og tilfinningarleg tengsl Íslands og Danmerkur frá sjónarhóli fiðluleikara og listamannsdóttur.

Hlíf mun kynna tvö einleiksverk fyrir fiðlu - annars vegar verkið Bel Canto, samið 2004, eftir danska tónskáldið Poul Ruders og hins vegar Að heiman eftir Rúnu Ingimundar, samið 2012.

Poul Ruders, fæddur 1949, er í dag talinn meðal fremstu tónskálda í Danmörku. Hann stundaði nám í orgelleik og sjálfur telur hann sig hafi þroskast hægt sem tónskáld og að hans eigin rödd hafi fyrst komið fram í kringum 1980.

Hann hefur samið einleiksverk fyrir ýmis hljóðfæri og auk kammertónlistar einnig sinfónísk verk sem hafa verið flutt bæði í heimalandi hans og í Bandaríkjunum. Rúna Ingimundar fæddist á Húsavík og ólst upp við söng, hljóðfæraleik, leiklist og dans. Hún er með doktorsgráðu í tónsmíðum/tónlistarmannfræði frá háskólanum í Arizona og hefur lagt sérstaka áherslu á íslensku þjóðlagahefðina. Verk hennar Að heiman byggir á fimm þjóð- og kvæðalögum sem Benedikt á Auðum skráði og sendi séra Bjarna Þorsteinssyni og birtust í Þjóðlagasafni hans.

Hér er um að ræða frumflutning í Reykjavík á báðum tónsmíðum.nánar um sýninguna í listasafni sigurjóns ólafssonar

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)