Ný sýning íslenskra samtímalistamanna á grafíkverkum í Listasafni Íslands. Á sýningunni má sjá hvernig listamennirnir hafa beitt margbreytilegri skapandi færni og ýmiskonar tækni. Sýningarstjórarnir Ingibjörg Jóhannsdóttir og Pari Stave hafa valið verk á sýninguna eftir listamenn sem vinna jafnhliða í grafík og aðra miðla. Meðal sýnenda eru rithöfundar og tónskáld en einnig myndlistarmenn sem eru síður þekktir fyrir grafíkverk sín, frekar fyrir málverk, þrívíð verk, innsetningar, gjörninga, ljósmyndaverk eða vídeólist. Á sýningunni Ýmissa kvikinda líki - Íslensk grafík eru yfir 100 þrykk og fjölfeldi eftir 27 listamenn. Þau elstu eru frá árinu 1957 og þau yngstu verða til á sýningunni. Verkin eru unnin með margskonar tækni, allt frá klassískum grafíkmiðlum eins og ætingum og silkiþrykki, til innsetningar sem gerð er með einþrykki og þrívíðu prenti. Á sýningunni kemur berlega í ljós að grafíkmiðill er engin hliðarafurð í listsköpun. Með miðlinum opnast einstakar leiðir til fjölfjöldunar og endurtekningar og til að skapa raðir verka þar sem ólíkir þættir eru kallaðir fram, í einhverju sem mætti líkja við fjölbreytilegan spuna. Undirliggjandi er spurningin af hverju listamenn velja að nota þennan miðil til sköpunar, á þennan hátt?Sýningarstjórar: Ingibjörg Jóhannsdóttir og Pari StaveEftirtaldir listamenn eiga verk á sýningunni: Arnar Herbertsson, Birgir Andrésson, Björk Guðmundsdóttir, Dieter Roth, Eygló Harðardóttir, Georg Guðni Hauksson, Guðjón Ketilsson, Hallgrímur Helgson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Hrafnhildur Arnardóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Kristín Sigurðardóttir, Kristján Davíðsson, Leifur Ýmir Eyjólfsson, Magnús Þór Jónsson, (Megas), Per Kirkeby, Roni Horn, Rúna Þorkelsdóttir, Rúri, Sara Riel, Richard Serra, Sigurður Árni Sigurðsson, Sigurður Atli Sigurðsson, Sigurður Guðmundsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Þóra Sigurðardóttir og Valgerður Guðlaugsdóttir.
Sunnudagsleiðsögn með sýningarstjóra 13. maí kl. 14