
Gjafapappírsútgáfa Listasafns Íslands og Litrófs prentsmiðju
sun
23. nóv
16—18
Gjafapappír sem listaverk ⇆ Listaverk sem gjafapappír
Það er eitthvað stórkostlegt við að umvefja gjafir með fallegri list. Listasafn Íslands og Litróf prentsmiðja kynna einstakt samstarf sem sameinar list og pappír í hátíðlegri gjafapappírsútgáfu með listaverkum Guðmundu Andrésdóttur (1922–2002) og Eyborgar Guðmundsdóttur (1924–1977). Safneign Listasafn Íslands geymir glæsileg verk eftir þær sem nú hafa fundið sér leið á einstakan gjafapappír.
Verk Eyborgar byggðu alla tíð á frumformum – hring, ferhyrningi, línu – út frá virkni þeirra innbyrðis og ertingu á sjóntaugina. Allan feril sinn hélt hún ótrauð áfram að rannsaka möguleika abstraktlistar og geómetríu og tók þannig þátt í því að þróa strangflatarmálverkið á ríkari hátt en nokkur annar íslenskur listamaður.
Listsýn Guðmundu byggði á afdráttarlausri formhyggju og var
hún einn þeirra íslensku listamanna er ruddu abstraktlistinni braut og var trú hinu óhlutbundna allan sinn feril.
Við fögnum þessari fallegu útgáfu sunnudaginn 23. nóvember kl 16:00-18:00 með glæsilegri kynningu í Listasafni Íslands.
Hvað er á dagskrá?
• Sýning á gjafapappírsútgáfunni með listaverkum Guðmundu og Eyborgar
• Hátíðleg stemning með léttum veitingum.
• Tækifæri til að tryggja sér gjafapappír og kort á staðnum.
• Safnbúðin verður opin – full af list fyrir jólapakkann ásamt þjónustu við innpökkun!
Hver örk af gjafapappír er hönnuð til að gleðja og vekja athygli á gildi listar í daglegu lífi – og getur einnig orðið ógleymanlegur hluti af heimilinu, fallega innrömmuð.
Eftir kynninguna verður pappírinn einnig fáanlegur í safnbúð Listasafns Íslands, Litróf prentsmiðju og víðar.
Hvenær? Sunnudaginn 23. nóvember
Hvar? Listasafn Íslands, Fríkirkjuvegi 7.
Við hlökkum til að fagna aðventunni með ykkur í list, pappír og gleði! Endilega staðfestið komu ykkar hér á viðburðinn.
Með hátíðarkveðju,
Listasafn Íslands og Litróf prentsmiðja

