Zanele Muholi

Listamannaspjall Zanele Muholi

lau

15. okt

13:3014:30

Safnahúsið

Zanele Muholi
Listamannaspjall, laugardaginn 15. október kl. 13:30

Yasufumi Nakamori, yfirsýningarstjóri við Tate Modern mun ræða við Zanele Muholi um verk háns kl. 13:30. Athugið að samtalið fer fram í Safnahúsinu við Hverfisgötu 15. Að því loknu hefst opnun sýningarinnar með ávarpi Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra á Fríkirkjuvegi 7.

Hér er á ferðinni stórsýning á verkum eins athyglisverðasta samtímaljósmyndara og aktívista í heiminum í dag, Zanele Muholi (f. 1972) frá Suður-Afríku.

Áhrifamiklar myndir Muholi varpa ljósi á sögu og réttindabaráttu svarts hinsegin og kynsegin fólks í heimalandi listamannsins. Þar gefur Muholi þeim rödd sem daglega þurfa að berjast til að öðlast viðurkenningu samfélagsins á sjálfsmynd sinni.

Á sýningunni má sjá yfir hundrað ljósmyndir auk videoverka eftir suður-afríska aktívistann og samtímaljósmyndarann Zanele Muholi, sem kýs að nota fornafnið hán, en verk háns gefa innsýn í líf svarts fólks sem tilheyrir hinsegin samfélaginu í Suður-Afríku og víðar. Þá varpa myndir háns ljósi á og leitast við að fræða áhorfendur um það misrétti sem þessir hópar verða fyrir samtímis því að skapa jákvæðar birtingarmyndir fyrir hópa sem er síður fjallað um eða fjallað er um á villandi hátt.

Muholi beinir linsunni einnig að sjálfu sér er hán býr til sjálfsmyndir sem takast á við hugmyndir um kynþátt, sögu og sýnileika.

Á tíunda áratug síðustu aldar gekk Suður-Afríka í gegnum miklar samfélagslegar og pólitískar breytingar. Þá var aðskilnaðarstefnan opinberlega afnumin árið 1994. Um var að ræða samfélagsgerð og stjórnarfar sem réðist af kynþáttabundinni mismunun og minnihlutastjórn hvíta mannsins. Hver sá sem taldist ekki hvítur var markvisst undirokaður af þáverandi stjórn.

Aðskilnaðarstefnan hélt þannig til streitu þeirri mismunun sem átti upptök sín í tíð hinna hollensku og bresku nýlenduvelda síðla á 19. öld. Aðskilnaðarstefna stjórnvalda viðhélt einnig misrétti og mismunun á grundvelli kyns og kynverundar. Þrátt fyrir að stjórnarskrá hins suður-afríska lýðveldis, sem tekin var í gildi árið 1996, hafi verið sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum til þess að banna mismunun á grundvelli kynhneigðar með lögum er hinsegin samfélagið þar í landi hins vegar enn skotspónn rótgróinna fordóma, hatursglæpa og ofbeldis.

Sýningin er á vegum listasafnsins Tate Modern í samvinnu við Listasafn Íslands, Bildemuseet við Umeå-háskóla og Kunstforeningen GL Strand, Kaupmannahöfn.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17