Sjónarafl

Að horfa á listaverk

fim

8. feb

15:0017:00

Safnahúsið

Dagskrá

Kl. 15
Ávarp
Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri

Kl. 15:10
Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi

Rannsóknarvinna, þróunarverkefni og útgáfa kennsluefnis.
Ragnheiður Vignisdóttir, fræðslustjóri og Marta María Jónsdóttir, safnkennari

Listasafn Íslands hóf á haustmánuðum 2021 þróunarverkefni sem ber heitið Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi en verkefnið miðar að því að auka þekkingu og skilning ungmenna á myndlist og sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Undir lok verkefnisins, sem unnið var í samstarfi við Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík, vann fræðsludeild safnsins úr niðurstöðum og gaf út kennsluefnið Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi. Í fyrirlestrinum verða þróunarverkefninu gerð skil, þar sem í safnfræðslunni voru notaðar kennsluaðferðir sem markvisst þjálfa nemendur í myndlæsi, tjáningu, virkri hlustun og rökhugsun.


Kl. 15:30
Hvernig ber að horfa á listaverk
Françoise Barbe-Gall, listfræðingur, bókahöfundur og stofnandi CO.RE.TA

Margir safngestir upplifa að listin sé vettvangur fagfólks, bæði dularfull og yfirþyrmandi í senn. Til eru leiðir til þess að gera myndlistina aðgengilega með myndlæsi. Í stað þess að auka við magn fræðilegra upplýsinga getum við veitt sambandi áhorfenda við málverk meiri athygli, hversu hverfult sem það er. Hvað sjá þeir í raun og veru? Hvaða áhrif upplifa þeir að verkin hafi á þá? Gleði, stundum harkalega höfnun, forvitni eða tómlæti. Allt er mögulegt og alltaf afhjúpandi: ef við áttum okkur á hvað það er í listaverki sem kveikir slík viðbrögð, gefst okkur tækifæri til að ráða fram úr því skref fyrir skref hver sé hin eiginlega merking og hvað raunverulega búi að baki. Listasagan verður tól sem hjálpar okkur að skilja en ekki markmið í sjálfu sér: því að mikilvægasti þátturinn er að hvetja fólk, óháð aldri, til að dýpka eigin sýn og skilning.
Þetta erindi fer fram á ensku.

Kl. 16
Merkingarbært nám í nútímasamfélagi
Ýr Káradóttir, sérfræðingur í kennslufræðum með áherslu á sjónræna ígrundun

Ytra mat á grunnskólastarfi gefur til kynna að námsaðstæður íslenskra nemenda séu almennt nokkuð einhæfar og að skortur sé á skipulagðri samvinnu í kennslustundum. Í erindinu verður fjallað um menntagildi listgreina og hvernig nýta megi myndlæsi í kennslu til þess að stuðla að fjölbreyttari kennsluháttum svo að merkingarbært nám geti átt sér stað.

Kl. 16:20
Listaverk hristir upp í hugarheimi: „Af hverju að setja sig í áhættu fyrir frið?“
Ingimar Ólafsson Waage, myndlistarmaður og lektor við listkennsludeild Listaháskóla Íslands

Vaxandi áhersla á siðferðilega menntun hefur vakið upp spurningar um hvernig fjölga megi tækifærum nemenda til að glíma við slík viðfangsefni. Siðferðilegur þroski er ævilangt ferðalag þar sem hæfnin til að hugsa gagnrýnið um siðferðileg álitamál vegur þungt auk tilfinninga sem fylgja slíkri ígrundun. Ingimar hefur á undanförnum árum rannsakað þau tækifæri sem myndlist býður upp á í þessum efnum. Listirnar búa yfir einstökum eiginleikum í þessu tilliti þar sem þær geta meðal annars verið eins konar eftirlíking af raunveruleikanum og hjálpað okkur að setja okkur í spor annarra, eða máta okkur við nýjar og ókunnar aðstæður. Þannig geta samræður um listaverk vakið með okkur nýja þekkingu, aukna meðvitund og dýpri skilning á margbreytileika tilverunnar. Ingimar mun í erindi sínu segja frá helstu niðurstöðum doktorsrannsóknar sinnar á gildi listgreinakennslu og ræða með hvaða hætti megi útfæra slíkar áherslur í daglegu starfi skóla.

Kl. 16:40
Umræður

Fundarstjóri: Dorothée M. Kirch, markaðs- og þróunarstjóri

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17