Opnun sýningarinnar Innsýn, útsýn – Listasafn Íslands í 140 ár
lau
12. okt
14:00—17:00
Í tilefni af 140 ára afmæli Listasafns Íslands verður opnuð ný sýning þar sem þessara tímamóta er minnst. Sýningin ber heitið Innsýn, útsýn – Listasafn Íslands í 140 ár en þar má sjá má verk eftir hátt í 100 listamenn, mikilsverðar gjafir sem safninu hafa borist og verk sem það hefur keypt í tímans rás.
Sýningunni er skipt upp í fjóra hluta sem eru: samfélagið, myndir af manneskjum, form og maður og náttúra. Á sýningunni eru hátt í 200 verk eftir tæplega 100 listamenn, þar á meðal málverk, skúlptúrar, ljósmyndir, vídeó, innsetningar og bókverk.
Verkin spanna tímann frá stofnun safnsins, þegar safneignin samanstóð fyrst og fremst af verkum eftir norræna listamenn eins og Önnu Ancher og Berthu Wegmann, til tíma frumkvöðlanna, Þórarins B. Þorlákssonar og Jóhannesar S. Kjarvals, eftirstríðsáranna sem Nína Tryggvadóttir og Louisa Matthíasdóttir eru fulltrúar fyrir og fram á tímaskeið framúrstefnumanna á borð við Magnús Tómasson og Sigurð Guðmundsson. Á sýningunni eru einnig glæný verk eins og En þú ert samt of brún fyrir Íslending eftir Melanie Ubaldo, sem eru til marks um hvernig myndlistarmenn eru sífellt að kljást við ný viðfangsefni og breytingar í samfélaginu. Verkin á sýningunni gefa ákveðna innsýn í listasögu okkar, frá öndverðu og til okkar daga en jafnframt gefur að líta alþjóðlega vídd í verkum eftir heimsþekkta listamenn, svo sem Edward Munch, Pablo Picasso, Dieter Roth og Roni Horn.