Gunnlaugur Scheving, bátur, róðravél, hafið, Safnahúsið

Heimsókn í Safnahúsið

Verið hjartanlega velkomin í skólaheimsókn á safnið!

Nemendum á öllum skólastigum er boðið í heimsókn í Listasafn Íslands. Í hverri heimsókn eru sýningar safnsins skoðaðar og nemendur hvattir til að taka þátt í umræðum um myndlist, listamenn, efnisnotkun og inntak listaverka. Í Safnahúsinu við Hverfisgötu stendur nú yfir sýningin Viðnám: samspil myndlistar og vísinda. Sýningin er á öllum 5 hæðum hússins og mælt er með að skólahópar bóki á eina hæð í einu.

Börn að skoða listaverk eftir Doddu Maggý

VIÐNÁM: SAMTAL MYNDLISTAR OG VÍSINDA

 

Sýningin Viðnám er þverfagleg sýning sem brúar bilið milli myndlistar og vísinda. Verkin á sýningunni eru öll í eigu Listasafns Íslands.  Viðnám er almennt mótspyrna eða andstaða en einnig má líta á orðið út frá eðlisfræði. Það er samheiti orðsins rafmótstaða, sem er tregða rafleiðara við að flytja rafstraum. Viðnám vísar einnig til viðspyrnu við neyslu sem allir verða að tileinka sér. Þá vísar viðnám til þeirrar mikilvægu mótstöðu sem heimsbúar verða að beita gegn hlýnun jarðar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Listaverkin á sýningunni tengjast öll orðræðunni um sjálfbærni og þeim siðferðilegu málefnum er tengjast þeirri vinnu sem stuðlar að þróun í átt að frekari sjálf­bærni. Verkin gefa okkur tækifæri til að velta vöngum yfir tilverunni, náttúrunni og öðru fólki. Hvernig fólk kýs að lifa lífinu og hvaða áhrif það vill hafa. Til að skapa forsendur fyrir góðu lífi þarf að hlúa að fjölmörgum þáttum og ekki síður samspili þeirra. Að lifa lífinu á þann hátt að maður viðhaldi góðu lífi án þess að skerða lífsgæði annarra er lykillinn að sjálfbærni.

Myndlist getur vakið áleitnar spurningar og listræn nálgun getur breytt því hvernig fólk lítur á heiminn. Í Safnahúsinu gefst tækifæri til að kanna, tengja saman, og skapa í samtali við listaverkin á sýningunni. Gestir eru hvattir til þess að hugsa um eigin reynslu í tengslum við inntak verkanna. Myndlistin getur þannig veitt viðnám og ýtt undir vilja fólks til að taka þátt í að umbreyta samfélaginu í átt að sjálfbærri framtíð.

LOFT


Á 4. hæð er ferðast um háloftin og fjalllendi Íslands sem er í stöðugri mótun sem virkt eldfjallasvæði. Eldgosum geta fylgt miklar hamfarir. Aska og vikur getur dreifst út um allt. Það gerist einkum þegar eldsumbrot eru undir sjó eða jökli. Í daglegu lífi gleymast smám saman eldstöðvarnar sem lifa undir jöklunum og landslagið skipar aðalhlutverkið með sínum fjölbreyttu litbrigðum jökulsins sem ólík birtuskilyrði kalla fram.

Hér er að finna verk sem sýna íslenska jökla sem hopa hratt vegna loftslagsbreytinga. Losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum veldur loftslagsbreytingum og afleiðingar þessara breytinga á jörðinni eru meðal annars þær að jöklarnir bráðna og öfgar í veðurfari aukast. Það felur í sér meiri úrkomu sem leiðir til flóða, skriðufalla og minnkandi vatnsgæða, auk minna vatnsframboðs á sumum svæðum.

Geimvísindi hjálpa til við að varpa ljósi á stöðu loftslagsmála. Þar sem jörðin er ein pláneta Vetrarbrautarinnar, þá er hægt að læra margt um loftslagið með því að rannsaka geiminn. Í kringum jörðina sveimar net gervitungla í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð, sem fylgjast með því sem er að gerast á jörðinni. Rannsóknargögn þeirra sanna ótvírætt að hitastig á jörðinni hefur hækkað með áður óþekktum hraða á síðustu öld vegna athafna mannanna.

Nálgun listamannanna sem hér eiga verk er allt frá því að sýna raunsanna mynd af náttúrunni að því að varpa ljósi á ævintýrin sem felast í henni. Þau benda á hvað er sameiginlegt í lífríkinu og hvað er sérstætt.

 

LÁÐ


Landið og náttúran hafa alla tíð verið viðfangsefni listamanna. Á þriðju hæð eru verk sem tengjast jörðinni, líffræðilegum fjölbreytileika, plöntum og dýrum. Jarðvegur er mjög mikilvægur lífríkinu og ekki síst mönnunum því hann er undirstaða allrar matvælaframleiðslu á þurrlendi. Fyrr á tímum bjó fólk í húsum sem voru þannig að ekki var alltaf ljóst hvar landinu sleppti og húsið tók við. Íslenski torfbærinn er gott dæmi um sjálfbæra hönnun þar sem efni úr nærumhverfinu voru nýtt. Ætli fólk hafi verið tengdara náttúrunni af þeim sökum?

Verkin sýna ólíkar plöntur og ólík afbrigði sömu tegunda. Einnig er hægt að skoða hvernig náttúran breytist í takt við árstíðaskipti. Maðurinn hefur breytt vistkerfinu með gjörðum sínum, ýmist viljandi til að laga það að þörfum sínum eins og í landbúnaði, eða óviljandi eins og með mengun umhverfisins. Með auknum umsvifum mannanna og með aukinni tækni eru þessar breytingar orðnar meiri en nokkru sinni fyrr. Afleiðingarnar eru afdrifaríkar fyrir náttúruna.

Fuglar eru langstærsti hluti sýnilegs dýraríkis Íslands. Á landinu verpa að jafnaði um 75 tegundir fugla, en meira en 100 tegundir hafa orpið hér einu sinni eða oftar.

Vatn er mikilvæg náttúruauðlind. Hreint vatn og hreinlætisaðstaða eru á meðal grunnþarfa alls mannkyns. Þess vegna er hreint vatn eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Verkin hér sýna samband okkar við vatn. Það er mikilvægt að fólk um allan heim hafi aðgang að neysluvatni. 

 

LÖGUR


Hafið veitir mörgum listamönnum innblástur til listsköpunar. Sumir fjalla um fegurð þess meðan aðrir skoða hvernig það ýmist gefur eða tekur. Heimshöfin eru öll tengd og þekja meira en 70% af yfirborði jarðar. Hafið knýr hnattræn kerfi sem gera fólki kleift að búa á jörðinni. Fiskveiðar voru lengi helsti atvinnuvegur Íslendinga. Sjómenn hafa í aldanna rás barist við báruna þegar þeir draga inn afla. Því fylgdu sjóskaðar með tilheyrandi manntjóni. Fiskurinn var unninn víðs vegar um landið og mótaði menningu sjávarþorpanna.

Sum verkin sýna ólíka afstöðu til hafsins, þar sem mennirnir ýmist tilheyra náttúrunni eða drottna yfir henni. Það er líka hægt að merkja hvernig samband manna við hafið hefur breyst. Það er mikilvægt að muna að jörðin er lokað kerfi með margar flóknar hringrásir. Hafið er í lykilhlutverki hvað varðar vatnsbúskapinn á jörðinni, því það er undirstaða hringrásar vatns. Náttúran byggir á viðkvæmu jafnvægi og raskist það t.d. með hlýnun jarðar getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir líf á jörðinni.

Hafið er fullt af lífverum, allt frá agnarsmáum örverum til stærstu dýra jarðarinnar. Með aukinni mengun af mannavöldum hefur magn koltvísýrings í andrúmsloftinu aukist. Það veldur aukinni kolefnisbindingu í sjó. Áhrif loftslagsbreytinga á hafið eru víðtæk, allt frá súrnun sjávar og breyttum straumum til taps á líffræðilegum fjölbreytileika sjávar og breyttra göngumynstra fiska.


LÖGMÁL


Listamenn hafa alla tíð unnið með þverfagleg málefni. Hér er tekist á við málefni sem tengjast lögmálum heimsins á sviði eðlis- og efnafræði. Allt frá hugmyndum eðlisfræðinnar um titrandi strengi, óreiðukenninguna og bylgjufræði til staðreynda um segulsvið jarðarinnar. Skapandi og greinandi hugsun einkennir vinnu bæði lista- og vísindamanna. Á sama hátt og vísindin eru innblástur fyrir listamenn þá getur listaverk dregið fram einstök og oft ófyrirsjáanleg sjónarhorn sem ögra vísindalegum hugmyndum og forsendum. Svo virðist sem menning lista og vísinda sé ólík; litið er á vísindamenn sem hlutlæga og fulla skynsemi, en listamenn sem huglæga, með djúpt innsæi. Stundum er látið sem þessir menningarheimar útiloki hvor annan, en það hefur ekki alltaf verið raunin.

Ekkert í heiminum stendur eitt og sér. Sérhver hlutur er hlekkur í keðju og er þannig tengdur öllum hinum hlekkjunum. Þessi keðja alheimsins verður að haldast órofin. Keðjuverkunin sameinar alla hluti og ferli í eina heild og skapar þannig forsendur fyrir jafnvægi. Allir hlutir í alheiminum, þar á meðal mannslíkaminn, eru samsettir úr orku, sem tengist og kemur saman í lokuðum hringrásum. Lífríki jarðarinnar er háð keðjuverkandi öflum sem tengjast saman eins og gangverk tannhjóla. Ef eitt tannhjólanna verður fyrir varanlegu hnjaski, þá raskast jafnvægið sömuleiðis varanlega. Orka er undirstaða alls efnis og hefur áhrif á allt annað. Sú orka sem skapar eina manneskju, skapar einnig allar aðrar lífverur. Orka er alltaf flæðandi og síbreytileg.

 

LEIKUR


Í kjallara Safnahússins er heimur þjóðsagna og ævintýra sem hafa varðveist í munnlegri geymd öldum saman. Ævintýri eru stundum dularfull vegna þess að í þeim blandast hið ótrúlega saman við það sem er hversdagslegt og eðlilegt. Það er af þessum sökum sem ævintýri eru listaverk í eðli sínu. Ævintýri veita fjölbreyttan innblástur, ekki bara í bókum heldur einnig í bíómyndum, tölvuleikjum, auglýsingum og listaverkum, eins og við sjáum hér. Þjóðsögur og ævintýri hafa bæði nýst til að skemmta fólki og til að fræða það og siða það til.

Með því að skoða ævintýri er hægt að vinna með sterkar tilfinningar gagnvart málefnum jarðarinnar sem mikilvægt er að skilja og bregðast við. Sögusvið ævintýra er annað en það sem er okkar veruleiki. Þau virkja ímyndunaraflið þannig að draumaveröld opnast þar sem ótrúlegustu hlutir geta gerst. Dýr geta t.d. fengið mannlega eiginleika og talað. Hlutverk persóna í ævintýrum eru fjölbreytt. Góðir álfar og huldukonur geta birst og leiðbeint afvegaleiddu fólki. Í ævintýrum leynast líka skúrkar sem stundum strá þyrnum á veg mannanna. Í flestum ævintýrum fær skúrkurinn makleg málagjöld og söguhetjan lifir hamingjusöm til æviloka. Í ævintýrum eru einstaklingar sem hjálpa hetju sögunnar í þeim vandamálum sem hún glímir við. Ævintýri sýna meðal annars að í heiminum finnst bæði hið góða og hið illa. Þegar jákvæð gildi, góðmennska og ást eru höfð að leiðarljósi vinnur hið góða með aðstoð þeirra sem eru tilbúin að hjálpa öðrum. Það er mikilvægt að allir jarðarbúar reyni að tileinka sér þá afstöðu til að stuðla að sjálfbærum heimi.

 

Verið velkomin í heimsókn!

Hægt er að bóka skólaheimsókn á mennt@listasafn.is

Viðnám

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)