Þingvellir

1900

Þórarinn B. Þorláksson 1867-1924

Landslag, þingvellir, hestur fyrir framan Þingvallavatn og annar í bakgrunni. Falleg blá birta, sumarbirta á Íslandi
LÍ-1051

Þingvallavatn er stærsta stöðuvatn á Íslandi frá náttúrunnar hendi. Mesta dýpi í Þingvallavatni er 114 metrar en meðaldýpt þess er 34 metrar. Þingvellir hafa meira sögulegt gildi en nokkur annar staður á Íslandi. Þar var Alþingi stofnað árið 930 og þar voru þingfundir haldnir sleitulaust í ríflega 850 ár, allt til ársins 1798. Þingvellir við Öxará og nágrenni er friðlýstur helgistaður allra Íslendinga og þjóðgarður. Þingvellir eru á heimsminjaskrá UNESCO vegna þess að staðurinn er talinn hafa einstakt menningarlegt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Tvenns konar minjar geta komist á heimsminjaskrána: mannvirki og náttúrufyrirbæri. Menningararf­leifðinni tilheyra söguleg mannvirki, byggingar og sérstakt menningarlandslag sem hefur að geyma sögulega, listræna, vísindalega, þjóðfræðilega eða mannfræðilega eiginleika. Náttúruarf­leifðinni tilheyra staðir sem hafa gildi vegna þess að þeir veita upplýsingar um líf á jörðinni, jarðfræðileg, líffræðileg eða vistfræðileg fyrirbæri, búa yfir sérstakri fegurð eða eru heimkynni sjaldgæfra dýrategunda. Stöðuvötn og vatnsföll leika stórt hlutverk í mörgum landslagsmálverkum, enda hrífandi náttúrufyrirbæri sem skapa stemningu og geta haft táknræna merkingu. Öxará og Þingvallavatn eru meðal þeirra náttúrufyrirbæra sem hafa hvað oftast ratað í málverk enda tilheyra þau frægasta sögustað landsins sem býr yfir tilkomumikilli náttúrufegurð og einstökum fjallahring.

Þórarinn B. Þorláksson er einn af fjölmörgum listmálurum sem heilluðust af Þingvöllum en verk hans tilheyra tímabili í íslenskri myndlistarsögu sem er kennt við frumherjana og tengist hugmyndafræðilega sjálfstæðisbaráttu og uppbyggingu nýs samfélags í upphafi 20. aldarinnar. Áhuginn á íslenskri náttúru er jafnan talinn sprottinn af þeirri þjóðernisrómantík er ríkti í íslenskri menningarumræðu á ofanverðri 19. öld og varð til þess að landslagið varð ríkjandi myndefni í upphafi 20. aldarinnar. Í verkum sínum hélt Þórarinn sig við þann rómantíska natúralisma sem hann kynntist í Kaupmannahöfn og byggði á þeirri akademísku þjálfun sem hann fékk í náminu. Þórarinn var fyrstur íslenskra málara til að halda einkasýningu á Íslandi, árið 1900, og sýndi hann afrakstur nýliðins sumars, meðal annars málverk frá Þingvöllum þar sem hann fangar töfra hinna björtu sumarnátta, bláleita birtuna og spegilslétt vatnið og kallar þannig fram andrúmsloft kyrrðar sem vekur tilfinningu fyrir hinu háleita.

  • Ár1900
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð57,5 x 81,5 cm
  • EfnisinntakFjall, Hestur, Kirkja, Landslag, Sveitabær
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga 10–17