Á flekaskilum - litir orkustöðva

2018

Erla Þórarinsdóttir 1955-

LÍ-11435

Öll orkan á jörðinni byggir á sambærilegum lögmálum þó svo að hún geti haft skýr sérkenni líkt og Erla Þórarinsdóttir sýnir í verkum sínum. Ætli flekaskilin sem liggja í gegnum Ísland hafi áhrif á orku Íslendinga? Á Íslandi eru flekaskil Norður-Ameríkuflekans annars vegar og Evrasíuflekans hins vegar, og færast flekarnir í sundur um tæpa tvo sentimetra á ári. Svona færsla jarðfleka kallast frárek. Sú tegund flekaskila finnst yfirleitt aðeins á miklu dýpi í úthöfum jarðar, á hinum svokölluðu úthafshryggjum.

Litanotkun Erlu Þórarinsdóttur er ögrandi. Meðvitað setur hún saman á einn flöt fjölbreytta liti og býr til óendanlegt munstur. Litirnir í verkinu Á flekaskilum – litir orkustöðva vísa í upplifun Erlu af orkustöðvum líkamans sem eiga bæði lit, hljóm og tíðni og eiga sér einnig ytri samsvörun í sjö orkustöðvum jarðar. Ein þessara orkustöðva er á Íslandi en landið er á skilum jarðskorpufleka Norður-Ameríku og Evrasíu. Flekarnir eru á stöðugri hreyfingu, og hér á landi hreyfast þeir frá hvor öðrum og nýtt efni kemur úr iðrum jarðar og fyllir í skarðið. Bilið á milli málverkanna minnir okkur á þessa gliðnun og svæðið þar sem áður óséð efni sem er laust við minningar kemur upp á yfirborðið.

  • Ár2018
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð180 cm
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur, Strigi

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga 10–17