Komposition
1959
Guðmunda Andrésdóttir 1922-2002
Þegar Guðmunda Andrésdóttir hóf feril sinn í myndlist á fimmta áratug síðustu aldar hafði abstrakt myndlist þegar náð fótfestu á meginlandinu og þá sérstaklega í París þar sem hún dvaldi við nám. Þegar litið er yfir feril Guðmundu kemur í ljós að nokkur stef eru ráðandi þar sem lína, litur og form skipa ætíð stóran sess. Í fyrstu málar hún samkvæmt lögmálum strangflatarmálverksins þar sem hún byggir á þéttriðnu neti skálína sem mynda þrístrend form. Hér virkjar hún miðju málverksins með heitum gulum og rauðum litum sem virðast sprengja sér leið fram á flötinn úr dimbláu djúpinu. Hún rannsakaði í þaula möguleika málverksins og fékk sífellt nýjar niðurstöður. Guðmunda var einn þeirra íslensku listamanna er ruddu abstraktlistinni braut og var trú hinu óhlutbundna allan sinn feril. Með einföldu myndmáli þreifaði hún sig áfram og með tímanum urðu verkin lífrænni í anda ljóðræns abstrakt expressjónisma. Í nafni Guðmundu var stofnaður styrktarsjóður sem að hennar ósk er ætlað að styðja ungt myndlistarfólk til náms. RP