Konur og menn

1974

Sigrún Sverrisdóttir 1949-

LÍ-11638

Vefnaður er tímafrekur og því eiga textíllistamenn ekki alltaf hægt um vik hvað varðar einkasýningar. Textílfélaginu, sem var stofnað árið 1974 og starfar enn, var meðal annars ætlað að stuðla að samsýningum félagsmanna. Sama ár var einnig settur á fót norrænn textílþríæringur og tók félagið þátt í uppbyggingu hans frá upphafi. Sýningar þríæringsins fóru um öll Norðurlöndin og átti hann mikilvægan þátt í að skapa textíllist hagstæð skilyrði þau ár sem hann var við lýði, eða fram til 1995.

Meðal þeirra níu verka eftir sex íslenska listamenn sem voru á fyrsta þríæringnum 1976–1977 var verk Sigrúnar Sverrisdóttur, Konur og menn, sem eins og mörg önnur textílverk frá þessum tíma endurspeglar þjóðfélagsumræðu samtímans þar sem réttindabarátta kvenna var ofarlega á baugi. Uppgangur textíllistar á áttunda áratugnum hélst í hendur við kvennabaráttuna í landinu og segja má að baráttan fyrir almennri viðurkenningu textíllistar sem fullgildrar greinar innan frjálsra lista endurspegli baráttu kvenna fyrir fullri viðurkenningu á störfum sínum í þjóðfélaginu.

  • Ár1974
  • GreinTextíllist, Textíllist - Myndvefnaður
  • Stærð150 x 102 cm
  • EfnisinntakKona, Maður
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniBómull, Ull

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17