Sumarnótt

1959

Gunnlaugur Scheving 1904-1972

LÍ 1168, Gunnlaugur Scheving, Sumarnótt, Summer Night, Dýramyndir, Húsdýramyndir, Mannamyndir
LÍ-1168

Það er mikilvægt að dvelja í náttúrunni til að geta skilið sjálfan sig í samhengi við annað líf á jörðinni. Gríski heimspekingurinn Sókrates lagði áherslu á að einstaklingar þekktu sjálfa sig og á framhlið musteris Apollós í Delfí voru letruð þessi kjörorð: Þekktu sjálfan þig. Þessi heimspekilegi boðskapur er bráðnauðsynlegur í eðli sínu því hann gefur til kynna að maðurinn verður að lifa samkvæmt sjálfum sér og til þess verður hann að þróa með sér siðferðisgildi. Þegar verkið Sumarnótt er skoðað sjáum við mikla harmoníu milli mæðgnanna, kýrinnar og kyrrðarinnar í náttúrunni. Unga stúkan á myndinni heldur á gulu blómi sem kallast á við gula litinn í miðnætursólinni.

Þungamiðjan í verkum Gunnlaugs Scheving er iðulega alþýðufólk sem vísar til altækra viðmiða óháð stað og stund. Hann er ekki að upphefja fólkið á hetjufullan hátt heldur tákngerir hann manngerðir úr íslenskri alþýðumenningu og gefur þeim algilda merkingu óháð þjóðerni og hnattstöðu og vekur þannig samkennd og veitir innsýn í líf og störf alþýðunnar. Verkin eru ekki bara hylling þessa alþýðufólks, þau sýna okkur einnig í hnotskurn sjálfsmynd þeirrar kynslóðar sem lifði millistríðsárin á Íslandi og lagði drjúgan skerf til þess að færa Ísland inn í nútímann. Í verkinu Sumarnótt, sem er eitt þekktasta verk Gunnlaugs, beinir hann athyglinni að bjartri sumarnótt á Suðurlandi þar sem værð færist yfir menn og dýr á meðan gróðurinn vex allan sólarhringinn. Listamaðurinn beinir hér athyglinni sérstaklega að tengslum kýrinnar og konunnar og milli þeirra er barnið með blóm í hönd sem leiðir hugann að myndum af Jesúbarninu. Hér er hin heilaga þrenning hinnar íslensku sumarnætur.

  • Ár1959
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð125 x 170 cm
  • EfnisinntakKona, Kýr, Stúlka
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga 10–17