Klara Lovise Berg

1902

Ásgrímur Jónsson 1876-1958

LÍ-11704

Ásgrímur málaði þessa andlitsmynd er hann var við nám við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn en þar var hann árin 1900—1903. Fyrirmyndin frú Klara Berg og kona Oscars Christian Berg sem rak málaraverkstæði í Kaupmannahöfn þar sem Ásgrímur vann um tíma við að mála húsgögn og hús. Undi hann hag sínum vel hjá þeim hjónum en Ásgrímur varð fyrstur Íslendinga til að gera málaralistina að ævistarfi sínu. Í fyrstu voru málverk hans í anda natúralisma samkvæmt danskri hefð þar sem farið var eins nálægt fyrirmyndinni og kostur var. Listaháskólinn þótti heldur staðnaður á þessum tíma og var Ásgrímur meðvitaður um það en hann hafði hrifist af verkum Rembrandts, hins mikla meistara ljóssins sem hann sá á sýningu í Þjóðlistasafninu í Kaupmannahöfn og kemur það fram í portrettinu.

Þetta grípandi málverk af Klöru Lovise Berg er mjúklega tónað brúnum litum sem sjá má í kjól konunnar, stólbaki, bakgrunni og brúnu hári. Ljósið fellur frá hægri og mótar andlit konunnar eins og um dagsbirtu sé að ræða og endurkastast frá hvítum blúndukraganum sem eykur grafíska skerpu málverksins. Málaðar andlitsmyndir héldu velli þrátt fyrir tilkomu ljósmyndarinnar og leiða hugann að þrá mannsins til að muna og verða minnst. Íslensk náttúra og þjóðsögur voru aðal viðfangsefni Ásgríms en talsvert málaði hann af sjálfsmyndum og portrettum ef til hans var leitað.

  • Ár1902
  • GreinMálaralist, Málaralist - Olíumálverk
  • Stærð46 x 38,5 cm
  • AðalskráMyndlist/Hönnun

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)