Fífulogar

2021

Jóna Hlíf Halldórsdóttir 1978-

LÍ-12005

FÍFULOGAR

Ef við hefðum ekki nefnt hann, hvaða tungumál

gæfi Vatnajökli ídealheiti? Fegurri tónblæ, réttara kyn.

- Meira en þúsund orð, 2020.


Ég stend mig stundum að því að vinna tilraunir í huganum. Önnur tilraunin felst í að ég spyr mig hversu mikið frábrugðið lífið væri því sem ég þekki ef ég talaði annað tungumál, hvort eða hversu mikið persónuleikinn myndi breytast ef ég væri frá öðru landi, Þýskalandi, Argentínu eða Sómalíu til dæmis. Hin felst í að horfa á íslenskt landslag og spyrja mig hvort upplifunin af því myndi breytast ef ég væri að horfa á það í gegnum annað tungumál.

Einu sinni heyrði ég innblásna ræðu um það að Íslendingar hefðu átt að kjósa hrafnafífu sem þjóðarblóm árið 2004, en ekki holtasóley (sem reyndar virðist líka opinbert blóm í Norðvesturhéruðum Kanada, auk þess hún er þjóðarblóm Sama). Ástæðurnar voru liturinn, dreifingin um landið og ljósið og birtan sem fífukveikir veittu heimilisfólki á Íslandi á árum áður. Nokkuð sem einnig hefur fengið hið ó, svo íslenska heiti: grútartýra. Grútartýrur þekkjast víðar en á Íslandi, til að mynda hjá flestum þjóðum sem notast við selspik og fífukveiki í lýsislampa.

Ég er nefnilega ekki viss um að neitt sem er þjóðlegt geti ekki á sama tíma verið er-lent eða alþjóðlegt. Það þjóðlega er tengt við það einstaka, það sérstaka. Hnattvæðingin birtir okkur að það einstaka og sérstaka víkur fyrir samtengdri alheimsupplifun. Að „við“, þ.e. Íslendingar, eigum flest, í það minnsta margt, sameiginlegt með öðrum þjóðum.

Við sköpum merkingu með sjónrænum hætti varðandi það hvað telst þjóðlegt í gegnum myndir, texta, liti, tákn, hluti og upplifun af landi eða sögu. Og stundum er eitt, stakt orð málsvari þess að enn er til eitthvað sérstakt, ógúgglanlegt, óþekkt og einstakt. Eða hvernig miðlum við gagnsæju orði á borð við fífuloga inn í önnur tungumál? Hvernig komum við hugmyndinni um birtuna frá eldi sem logar í fífukveik til skila? Skiljast fífulogar á króatísku, finnsku, japönsku, frönsku, sænsku, ensku, rússnesku, víetnömsku, grænlensku, grísku eða esperantó?

Við getum mögulega smíðað orð sams konar merkingar á öðrum tungum, rétt eins og orðið var skapað af skáldkonunni Erlu (Guðfinna Þorsteinsdóttir, 1891-1972). Og mögulega má alltaf, hvern einasta dag, skapa nýyrði á íslensku, ný sérstök eða einstök orð. Eða ætli önnur tungumál þekki orðið þagnardrauma, svo vitnað sé í ljóð Erlu?

Hvað gerist annars þegar sérstakt, íslenskt orð, á allt öðru tungumáli, tengir sig við kunnuglegt landslag? Er ekki vel hægt að upplifa eitthvað þjóðlegt og hugsa eitthvað sem við teljum „íslenskt“ á annarri tungu? Hvað stendur þá eftir af því sem er talið þjóðlegt? Ef til vill ekkert annað en heildarsafn allra upplifana sem ekki hafa gleymst hjá fólki sem lifir, hrærist og deyr á þessu eylandi. Kannski óþýðanleiki. Kannski sköpunarkraftur.

  • Ár2021
  • EfnisinntakFífa, Kerti, Landslag, Tákn, Tungumál, Þjóð
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniLjósmynd, Ljósmyndapappír, Prentlitur

Kristín Ómarsdóttir: "Fólk tjáir ástarhug öðruvísi á dönsku en á frönsku", Stundin, 25. október 2021: https://stundin.is/grein/14221/

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17