Frá Þingvöllum

1932

Jóhannes Kjarval 1885-1972

LÍ-1408

Jóhannes Kjarval er meðal þeirra listamanna sem lögðu grunn að íslenskri nútímamyndlist á fyrri hluta tuttugustu aldar. Hann stundaði nám við Listaháskólann í Kaupmannahöfn 1913–1917 og dvaldist að mestu í Danmörku til 1922, en fór til Ítalíu árið 1920 og Frakklands árið 1928. Afstaða Kjarvals til stílhugtaksins var frjálsleg og brá hann fyrir sig ýmsum stílbrigðum eftir því hvað viðfangsefnið leyfði. Áhrif frá táknhyggju og kúbisma komu snemma fram í verkum hans. Að hætti kúbista brýtur hann hraunið upp í rúmfræðileg form og gerir að massa sem skapar áþreifanlega nálægð mót ljósbláum lit fjallanna í fjarska með rjómagula morgunbirtuna yfir sviðinu. Með málverkum frá Þingvöllum um og eftir 1930 innleiddi Kjarval nálægðina í íslenska landslagslist þar sem hann beindi sjónum að hrjóstrugum jarðveginum, hrauninu, klettunum og lággróðrinum. Hann átti sér nokkra uppáhaldsstaði í hrauninu á Þingvöllum og málverkið Frá Þingvöllum er eitt af mörgum sem hann málaði frá sama sjónarhorni en á mismunandi árstímum. Þungir grábláir litir tóna forgrunn málverksins þar sem línuteikning afmarkar klettana og hraunið meðan tær morgunbirta leikur um baksviðið þar sem þekkja má dyngjulaga Skjaldbreið í fjarska. Þannig varð náttúra landsins miðill til að tjá tilfinningar og hugmyndir að hætti expressjónistanna en fyrst og fremst reiddi hann sig á eigin frumleika. Jóhannes Kjarval var ásamt Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 1960. Kjarval ánafnaði Reykjavíkurborg stóran hluta listaverka sinna og persónulegra muna árið 1968.  

  • Ár1932
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð103 x 147 cm
  • EfnisinntakFjall, Gjá, Landslag
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur
  • Merking gefanda

    Dánargjöf Gunnars Stefánssonar stórkaupmanns 1967.

Kristín G. Guðnadóttir, Kjarvalsbók, 2005

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17