Kristallar

1968

Steinþór Sigurðsson 1933-

LÍ-1507

Steinþór Sigurðsson kom fram á sjónarsviðið er abstrakt myndlist hafði unnið sér sess hér á landi og fetaði þá slóð lengst af. Kraftmikil olíumálverk og seiðandi vatnslitamyndir fleyttu honum langt á tímum umbrota á myndlistarsviðinu og er heimildamyndin Strigi og flauel frá árinu 2013, eftir Önnu Þóru Steinþórsdóttur, til vitnis um það. Hann stundaði nám við Handíða- og myndlistarskólann og síðan í Stokkhólmi og Barselóna á árunum 1949–1956. Var kennari við Handíða- og myndlistarskólann um hríð. Verkefni Steinþórs voru fjölmörg, ekki síst á sviði leikmyndahönnunar hjá Leikfélagi Reykjavíkur auk þess sem hann setti upp safnasýningar. Þá eru ótalin frímerki sem hann vann fyrir Póst og síma. Málverk Steinþórs, Kristallar, er óhlutbundið en heiti verksins og blákaldur litaskali leiðir hugann að köldum vetrardögum og ísilögðum tjörnum þar sem heyra má brestina í ísnum og marrið í snjónum. Hraði og hreyfing einkennir verkið og markast það af snerpu í meðferð pensilsins og léttleika í vinnubrögðum þar sem unnið er út frá miðjunni. Steinþór hélt sig á slóðum abstrakt-expressjónisma í málverkum sínum og átti samleið með Septem-hópnum eftir 1974 er þessi samtök um sýningarhald voru endurnýjuð. Það sem einkennir málverk Steinþórs fram á níunda áratug síðustu aldar eru kvik og óþvinguð vinnubrögð sem skila sér í fersku og lifandi málverki.

  • Ár1968
  • GreinMálaralist - Olíumálverk
  • Stærð98 x 123 cm
  • EfnisinntakAbstrakt
  • AðalskráMyndlist/Hönnun
  • EfniOlíulitur

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17