Sumarnótt

1929

Jón Stefánsson 1881-1962

Hér túlkar Jón kyrrð íslenskrar sumarnætur. Að venju er myndin byggð upp á láréttum línum í þrem stigum inn í myndrýmið. Fremst er árbakki með tveim fuglum, þá áin spegilslétt og loks fjall, sem rís eins og klettaborg í bakgrunni. Spegilmynd fjallsins eykur mátt þess og jafnframt dýpt myndarinnar, en bjarminn yfir því gæðir myndina vídd og endurkast hans frá vatninu lýsir allan flötinn. Svöl birtan og speglunin í vatninu ljá verkinu afar djúphuglan blæ og áhorfandinn skynjar þá kyrrð sem er tjáð. Í forgrunn þessarar kyrrðarmyndar af landinu hefur listamaðurinn fellt inn tvo fugla sem ber við ljósan flötinn og mynda lóðréttar og hallandi línur til mótvægis við láréttar línur landsins. Ávalir búkar þeirra eru mótaðir með hlýjum litum andstætt hinum svölu litatónum, sem eru ríkjandi, og skapa þannig nálægð í þeirri víðáttu sem við blasir. Fuglarnir leita inn í mynddýptina, í átt til tignarlegs fjallsins, og augu áhorfandans fylgja þeim eftir. Návist þeirra eykur enn á hinn djúphugula andblæ verksins þar sem þeir verða eins konar staðgenglar mannsins í náttúrunni, en nátengdari henni. Þeir eru hið eina kvika í myndinni og í huga þess, sem á horfir, verður hún ímynd íslenskrar sumarnætur þar sem ekkert heyrist nema kvak fugla. Listasafn Íslands keypti málverkið árið 1930. (Júlíana Gottskálksdóttir, „Umfjöllun um tíu meginmyndir Jóns Stefánssonar í Listasafni Íslands“, Jón Stefánsson 1881-1962 (Listasafn Íslands: Reykjavík, 1989).)

Tveir lómar í íslenskri sumarnótt við þjórsá. Málverk eftir Jón Stefánsson.
LÍ-366
  • Year1929
  • TypeMálaralist - Olíumálverk
  • Size100 x 130 cm
  • SummaryÁ, Fjall, Fugl, Landslag, Sumar
  • Main typeMyndlist/Hönnun
  • MaterialOlíulitur

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17