Húm

1976

Guðmunda Andrésdóttir 1922-2002

LÍ-3844

Guðmunda Andrésdóttir fæddist í Reykjavík 3. nóvember árið 1922. Eftir henni er haft að það hafi verið sýning Svavars Guðnasonar í Listamannaskálanum árið 1945 sem hafi heillað hana svo að hún ákvað að leggja út á listabrautina. Árið 1946 hóf hún nám í Gautaborg og svo í Konstfack-listaháskólanum í Stokkhólmi. Hún stundaði jafnframt nám við málaraskóla Otte Skjöld í Stokkhólmi 1945–1946. Eftir dvöl á Íslandi við skrifstofustörf og listkennslu hélt hún til Parísar og nam myndlist við L’Académie de la Grande Chaumière 1951 og við L’Académie Ranson 1951–1953. Á þessum árum kynntist Guðmunda helstu straumum og stefnum listarinnar í París, þar sem geómetrísk abstraktlist var efst á baugi. Þar mótaðist sú listsýn sem Guðmunda þróaði allan sinn listferil og byggði á afdráttarlausri formhyggju og ítarlegri úrvinnslu eða tilbrigðum við afmarkaðar formhugmyndir. Hún rannsakaði í þaula möguleika málverksins og fékk sífellt nýjar niðurstöður. Guðmunda var einn þeirra íslensku listamanna er ruddu abstraktlistinni braut og var trú hinu óhlutbundna allan sinn feril en í lok sjötta áratugarins hóf hún að brjóta upp strangleika geómetríska málverksins. Verk hennar voru sýnd á síðustu sýningu Septemberhópsins (1947–1952) árið 1952 en fyrstu einkasýningu sína hélt hún í Ásmundarsal árið 1956 og sýndi þar 16 málverk. Síðar var hún um árabil einn félaga í Septemhópnum (1974–1990), sem var helsti vettvangur íslenskra abstraktmálara.

 

  • Year1976
  • TypeMálaralist - Olíumálverk
  • Size110 x 95 cm
  • SummaryAbstrakt
  • Main typeMyndlist/Hönnun
  • MaterialOlíulitur, Strigi

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17