Komposition
1958
Nína Tryggvadóttir 1913-1968
Nína Tryggvadóttir var brautryðjandi í íslenskri myndlist, einn fárra listamanna síns tíma sem gátu starfað í alþjóðlegu samhengi og eygt von um að setja mark sitt á listastefnur líðandi stundar. Nína er fyrsti kvenkyns abstraktmálari Íslendinga. Listferill hennar lýsir manneskju sem hafði kjark til að leita og finna, spyrja og spyrja enn og aftur. Nína hélt ung til Danmerkur til náms í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn og síðar lá leið hennar til framhaldsnáms í París og New York. Hún hélt til New York-borgar eftir seinna stríð og hugðist setjast þar að enda mikill gangur í myndlistarlífi borgarinnar á þessum tíma. En Nína fékk ekki dvalarleyfi í Ameríku og flutti sig um set til Parísar og seinna til Lundúna, ásamt eiginmanni sínum Al Copley. Hún fékk loks dvalarleyfi í Bandaríkjunum árið 1959 og settist að í New York en eftir fjarveruna stóð hún utan þeirrar hringiðu sem hún hafði áður verið þátttakandi í. Hún vann í ýmsa listmiðla hverju sinni, málverk, mósaíkmyndir og glerverk og er verk hennar að finna á söfnum víða um heiminn. Nína sýndi verk sín á fjölmörgum einkasýningum og samsýningum. List hennar þróaðist stöðugt en staðnaði ekki og endurspeglar forvitni, þar sem hugurinn er leitandi og breytingar fela í sér nýja byrjun og nýjar leiðir í myndlistinni.